Öruggt hjá Þór í Boganum

Þórsarar áttu nokkuð greiða leið inn í 16-liða úrslit Valitor-bikar karla í knattspyrnu er liðið tók á móti 3. deildar liði Leikni F. í Boganum í kvöld í 32-liða úrslitum. Fyrirfram var búist við öruggum sigri Þórs og það kom á daginn. Heimamenn unnu leikinn örugglega 5:0, en leikurinn var aldrei spennandi og lítt skemmtilegur. Gísli Páll Helgason sá þó til þess að gera leikinn eftirminnilegan, en hann skoraði sennilega fallegasta mark sitt á ferlinum og eitt af mörkum sumarsins, er hann skoraði fjórða mark Þórs í leiknum með hörkuskoti upp í samskeytin.

Þórsarar gerðu nokkrar breytingar á liði sínu og hvíldu lykilmenn. Markvörðurinn Srjdjan Rajkovic var á bekknum og einnig þeir Gísli Páll Helgason, Sveinn Elías Jónsson og Jóhann Helgi Hannesson. Gísli átti þó eftir að koma við sögu. Þórsarar stilltu engu að síður upp sterku liði.Fyrri hálfleikurinn var leikur kattarins að músinni. Þórsarar höfðu öll völd í leiknum en Leiknismenn vörðust og það gekk erfiðlega að fyrir heimamenn að brjóta ísinn, en færin létu þó ekki á sér standa.

Ottó Hólm Reynisson fékk dauðafæri eftir níu mínútna leik en slakt skot hans af stuttu færi fór beint á Óðinn Ómarsson í marki gestanna, sem átti ekki í vandræðum með að verja.

Ottó Hólm fékk svo annað dauðafæri aðeins tveimur mínútum síðar er hann slapp einn inn fyrir vörnina en aftur sá Óðinn við honum.David Disztl sýndi flotta takta skömmu síðar er hann tók hjólhestaspyrnu sem fór í varnarmann, en þaðan barst boltinn til Ottó Hólms, sem virtist fyrirmunað að skora, en skot hans fór í slána að þessu sinni.

Disztl fékk svo fínt færi sjálfur eftir um 25 mínútna leik en skalli hans úr fínu færi var arfaslakur og fór framhjá.Eitthvað varð undan að láta og Þórsurum tókst loksins að brjóta ísinn aðeins andartökum síðar, er Ottó Hólm skoraði með góðu skoti í vinstra hornið. Staðan 1:0 og eflaust þungu fargi létt af Ottó, sem hafði farið illa með þrjú dauðafæri fram að þessu.

David Dizstl skoraði svo sitt fyrsta mark fyrir Þór er hann kom liðinu í 2:0 með marki af stuttu færi á 36. mínútu. Gott fyrir Disztl að ná marki en hefur ekki verið á skotskónum í sumar.Staðan 2:0 í hálfleik.Þórsarar bættu við þriðja markinu er seinni hálfleikurinn var tíu mínútna gamall en þar var að verki Gunnar Már Guðmundsson, sem einnig var að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið. Sigurður Marinó Kristjánsson sendi boltann fyrir markið og eftirleikurinn auðveldur fyrir Gunnar. 

Það var svo á 67. mínútu sem mark leiksins, og hugsanlega eitt af mörkum sumarsins, leit dagsins ljós. Gísli Páll Helgason, sem var nýkominn inná sem varamaður, lék með boltann að vítateigshorninu hægra megin og lét vaða og boltinn fór upp í samskeytin vinstra megin. Frábært mark hjá Gísla en Þórsarar og áhorfendur virtust ekki gera sér strax grein fyrir því að boltinn væri inni, sjálfur hélt blaðamaður að boltinn hefði farið yfir, svo þétt upp í samskeytin fór boltinn.

Staðan 4:0 og úrslitin löngu ráðinn í Boganum.

 

David Disztl skoraði sitt annað mark í leiknum á 87. mínútu og fimmta mark Þórs í leiknum, en markið var af stuttu færi eftir sendingu fra Inga Frey Hilmarssyni.

 

Lokatölur 5:0.  

Nýjast