SA Ásynjur unnu Björninn örugglega, 7-3, í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld í fyrsta leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitil kvenna í íshokkí. Norðanstúlkur höfðu mikla yfirburði í leiknum en Bjarnarstúlkur börðust þó ágætlega á köflum. Birna Baldursdóttir skoraði þrennu fyrir SA í leiknum, Sarah Smiley tvívegis og þær Guðrún Blöndal og Anna Sonja Ágústsdóttir sitt markið hvor. Flosrún Vaka Jóhannesdóttir skoraði tvívegis fyrir Björninn og Steinunn Sigurgeirsdóttir eitt mark.
SA hefur 1-0 forystu í einvíginu en vinna þarf þrjá leiki til þess að verða meistari. Liðin mætast að nýju á fimmtudagskvöldið kemur á heimavelli Bjarnarins í Egilshöllinni.