Opnum fundi um Reykjavíkurflugvöll frestað vegna veðurs
Opnum fundi um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem átti að fara fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í dag hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna veðurs. Ekkert hefur verið flogið frá Reykjavík til Akureyrar í dag. Á fundinum áttu að hafa framsögu þeir Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri, fulltrúi frá ISAVIA og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík.
Mikill styrr hefur staðið um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar hin síðari ár. Vangaveltur hafa verið um hvort flytja eigi innanlandsflugið til Keflavíkur eða byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Á síðari árum hafa bæjarstjórn og bæjarráð Akureyrar ítrekað bókað um Reykjavíkurflugvöll og mikilvægi hans.