Opinn hugarflugsfundur um gerð nýrrar menningarstefnu
Vinna við gerð nýrrar menningarstefnu fyrir Akureyrarbæ stendur yfir og er nú komið að opnum HUGARFLUGSFUNDI sem fram fer á föstudaginn klukkan 14-18 í Ketilhúsinu. Allir eru velkomnir og er fólk er hvatt til að mæta og taka þátt í að skapa nýja metnaðarfulla og skemmtilega stefnu fyrir menningarbæinn Akureyri.
Þeir sem hafa ekki tök á að mæta en vilja leggja sitt af mörkum í hugmyndabanka geta sent sitt framlag á netfangið menningarstefna@akureyri.is Búið er að vinna ákveða undirbúningsvinnu fyrir fundinn en fimm hópar hafa verið starfandi frá byrjun þessa árs, þar sem staða eftirfarandi listgreina hefur verið skoðuð: sviðslista, sjónlista, ritlistar, menningararfsins (söfn og saga) og tónlistar. Afrakstur vinnuhópanna má sjá á: (http://www.visitakureyri.is/is/ahugavert/menning-og-sofn/hugarflugsfundur-um-gerd-nyrrar-menningarstefnu-akureyrarbaejar)
Á fundinum verður farið yfir afrakstur vinnuhópanna og kallað verður eftir hugmyndum frá bæjarbúum og leitað svara við spurningum á borð við:
-Hvernig sérðu framtíð listgreinarinnar eftir 10 ár?
-Hvaða hindranir sérðu í að ná þessari framtíðarsýn?
-Hvaða lausnir sérðu til að yfirstíga þessar hindranir?
-Hvernig sérðu þína listgrein tengjast öðrum listgreinum?