Opinn fundur á Húsavík um jarðskjálfta og jarðváreftirlit

Ráðstefnugestir ráða ráðum sínum í Framsýnarsalnum í dag. Mynd: Heiðar Kristjánsson.
Ráðstefnugestir ráða ráðum sínum í Framsýnarsalnum í dag. Mynd: Heiðar Kristjánsson.

Í gær hófst á Húsavík alþjóðleg ráðstefna um  jarðskjálfta og jarðváreftirlit. 60-70 vísindamenn og nemar frá öllum heimshornum sitja ráðstefnuna ásamt ýmsum heimamönnum sem koma að þessum málum með einum eða öðrum hætti. Ráðstefnan hefur til þessa farið fram á ensku, en á morgun, fimmtudag, verður opinn fundir í Framsýnarsalnum kl. 14.30 til 18.00.

Þar munu sérfræðingar í rannsóknum og jarðváreftirliti koma til opinnar samræðu við fólk í stjórnsýslu og almenning. Í stuttum erindum verður sagt frá efni og markmiðum ráðstefnunnar.  Að þeim loknum  verður opin umræða þar sem í pallborði verða almannavarnafólk, sveitastjórnafólk, verkfræðingar og tæknifræðingar í héraði, sérfræðingar á sviði jarðvísinda og jarðskjálftaverkfræði, aðilar í stórframkvæmdum á Norðurlandi sem og fulltrúar úr heilbrigðis- og samfélagsgeirum.

Meðal erinda á fundinum mál nefna efirfarandi:  Yfirlit um jarðskorpuhreyfingar á Norðurlandi. Jarðskjálftahætta á Norðurlandi. Skammtímaviðvaranir um jarðskjálfta. Jarðváreftirlit Veðurstofunnar. Viðbragðsáætlanir – til hvers? Hlutverk Viðlagatrygginga Íslands í náttúruhamförum.

Að erindum fluttum verða eins og áður sagði, pallborðsumræður í 90 mínútur með þátttöku framsögumanna og fólks úr hópi fundargesta. Allir eru boðnir velkomnir á þennan fund á morgun. JS

Nýjast