PCC BakkiSilicon hf. býður Húsvíkingum og nærsveitungum í heimsókn á starfssvæði fyrirtækisins á Bakka við Húsavík sunnudaginn 20. ágúst þar sem áhugasömum verður boðið að kynna sér starfsemina frá kl. 13 til 17, spjalla við starfsfólk fyrirtækisins og þiggja léttar veitingar. Íbúum dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hvamms verður boðið sérstaklega í heimsókn í fyrirtækið fyrr sama dag.
Haldnar verða nokkrar stuttar kynningar á vegum starfsfólks þar sem sagt verður frá því helsta í framleiðsluferlum verksmiðjunnar sem gert er ráð fyrir að hefji formlega starfsemi í desember.
Boðið verður upp á skipulagðar rútuferðir frá Húsavík til Bakka á sunnudag. JS