Óperuperlur og frumsamin lög á Sumartónleikum í Akureyrarkirkju
Margrét stundaði tónlistarnám í Borgarnesi frá fimm ára aldri og síðar á Akureyri þar sem hún nam söng til ársins 2007. Aðalkennarar hennar voru Dagrún Hjartardóttir, Erla Þórólfsdóttir, Sigríður Aðalsteinsdóttir og Michael Jon Clarke. Árið 2010 lauk Margrét BA námi í klassískum söng með hæstu einkunn hjá lektor Synnöve Dellqvist við LTU - Musikhögskolan i Piteå í Svíþjóð. Sem útskriftarverkefni skrifaði Margrét, ásamt Gísla J. Grétarssyni, kammeróperu við söguna af Dimmalimm og skrifaði hún bæði libretto og söng titilhlutverkið. Margrét stundar nú sjálfstætt mastersnám í söng við LTU og starfar sem einsöngvari bæði á Íslandi og í Svíþjóð.
Gísli er fæddur og uppalinn Akureyringur. Hann lauk burtfararprófi á klassískan gítar frá Tónlistarskólanum á Akureyri árið 2003. Árið 2007 fluttist hann til Svíþjóðar og hóf nám í tónsmíðum við Tónlistarháskólann í Piteå, þaðan sem hann lauk BA prófi árið 2010. Sama ár byrjaði Gísli í mastersnámi við áðurnefndan háskóla. Hann hefur einnig lært gítarútsetningu og tónsmíðar.
Gísli hefur náin tengsl við Akureyrarkirkju og kóra hennar, og má þar nefna frumflutning kammerkórsins Hymnodiu á spunakórverkinu ,,Upplifun” á Myrkum músíkdögum 2010 og kórverkið ,,Systir Sól og bróðir Máni” sem Gísli samdi fyrir kór Akureyrarkirkju í tilefni að 70 ára vígsluafmæli Akureyrarkirkju í nóvember sl.