Óperuperlur og frumsamin lög á Sumartónleikum í Akureyrarkirkju

Fjórðu tónleikarnir í tónleikaröðinni Sumartónleikar í Akureyrarkirkju verða sunnudaginn 24. júlí kl. 17.00 en þá munu Margrét Brynjarsdóttir mezzosopran og Gísli Jóhann Grétarsson gítarleikari flytja óperuperlur sem Gísli hefur útsett fyrir sópran og gítar. Einnig munu þau flytja frumsamin lög Gísla en hann stundar nú meistaranám í tónsmíðum við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð. Ókeypis er á tónleikana og allir eru velkomnir.

Margrét stundaði tónlistarnám í Borgarnesi frá fimm ára aldri og síðar á Akureyri þar sem hún nam söng til ársins 2007. Aðalkennarar hennar voru Dagrún Hjartardóttir, Erla Þórólfsdóttir, Sigríður Aðalsteinsdóttir og Michael Jon Clarke. Árið 2010 lauk Margrét BA námi í klassískum söng með hæstu einkunn hjá lektor Synnöve Dellqvist við LTU - Musikhögskolan i Piteå í Svíþjóð. Sem útskriftarverkefni skrifaði Margrét, ásamt Gísla J. Grétarssyni, kammeróperu við söguna af Dimmalimm og skrifaði hún bæði libretto og söng titilhlutverkið. Margrét stundar nú sjálfstætt mastersnám í söng við LTU og starfar sem einsöngvari bæði á Íslandi og í Svíþjóð.

Gísli er fæddur og uppalinn Akureyringur. Hann lauk burtfararprófi á klassískan gítar frá Tónlistarskólanum á Akureyri árið 2003. Árið 2007 fluttist hann til Svíþjóðar og hóf nám í tónsmíðum við Tónlistarháskólann í Piteå, þaðan sem hann lauk BA prófi árið 2010. Sama ár byrjaði Gísli í mastersnámi við áðurnefndan háskóla. Hann hefur einnig lært gítarútsetningu og tónsmíðar.

Gísli hefur náin tengsl við Akureyrarkirkju og kóra hennar, og má þar nefna frumflutning kammerkórsins Hymnodiu á spunakórverkinu ,,Upplifun” á Myrkum músíkdögum 2010 og kórverkið ,,Systir Sól og bróðir Máni” sem Gísli samdi fyrir kór Akureyrarkirkju í tilefni að 70 ára vígsluafmæli Akureyrarkirkju í nóvember sl.

Nýjast