Umferðin um Vaðlaheiðargöng er líklega sá þáttur sem mest óvissa er um varðandi rekstrargrundvöll ganganna. Umferðin um göngin er einnig hin hliðin á spurningunni um greiðsluviljann því eftir því sem veggjaldið er hærra því minni verður umferðin. Ef veggjald er ekkert þá verða engar tekjur, ef veggjald er stjarnfræðilega hátt verða ekki heldur neinar tekjur því þá velur enginn að aka um göngin. Við eitthvað ákveðið gjald sem er hóflegt nást hins vegar mestu tekjurnar. Litlar upplýsingar eru til að byggja á til að finna hversu hátt þetta gjald er. Í fyrstu grein var þó rökstutt út frá reynslunni af Hvalfjarðargöngum að líklega verði gjaldið 800 kr. um Vaðlaheiðargöng til þess að fleiri fari um göngin en um Víkurskarð áður. Hér verður miðað við áðurnefnt veggjald 800 kr. fyrir staka ferð fólksbíls og spurningin þrengd í eftirfarandi: Hver verður umferðin um Vaðlaheiðargöng ef veggjaldið verður 800 kr. fyrir ferð?
Fyrsta skref er að reyna að spá hvernig umferðin muni þróast fram að opnun ganganna. Undanfarin fimmtán ár hefur umferð um Víkurskarð aukist mjög mikið. Engin sýnileg ástæða var þó fyrir mikilli umferðaraukningu á þessum árum. Mannfjölgun var að vísu á Akureyri en stöðug fólksfækkun var hinum megin Vaðlaheiðarinnar. Þrátt fyrir þetta óx umferð á Vikurskarði úr ÁDU 693 árið 1996 upp í 1.256 árið 2010. Sjá línurit. Athygli verkur að umferðin hélt áfram að vaxa eftir hrun, mesta umferð nokkurntíman á Víkurskarði var 2010. Umferðin næstu ár er mjög óviss. Þrátt fyrir að líklegt sé að botninum sé náð í efnahagslífinu er líklegt að olíuverð verði hátt sem og skattar á bensín. Það er því ekki varlegt að gera ráð fyrir að umferðaraukning verði sú sama næstu ár og hún hefur verið undanfarin ár. Ekki virðist heldur ástæða til að gera ráð fyrir samdrætti í umferðinni sé litið nokkur ár fram í tímann. Af þessum sökum er kannski eðlilegast að gera hreinlega ráð fyrir sömu umferð árin 2011-2014 og var 2010 eða ÁDU 1.256.
Umferðin um Hvalfjarðargöngin á fyrsta ári var 43% meiri en fyrir Hvalfjörð fyrir göng. Þá má spyrja hvort vænta megi hliðstæðs umferðarstökks í Vaðlaheiðargöngum þegar þau verða opnuð með álíka veggjaldi á sparaðan kílómetra. Undirritaður gerði nokkuð ítarlega greiningu með samskiptalíkani á væntu umferðarstökki fyrsta árið í Vaðlaheiðargöngum og var niðurstaðan sú að stökkið yrði mun minna en í tilfelli Hvalfjarðarganga eða um 16%. Skýringin er sú að Akranes vegur þungt í umferðarstökki um Hvalfjarðargöng vegna staðsetningar sinnar nálægt gangaendanum en enginn þéttbýlisstaður er nálægt Vaðlaheiðargöngunum að austan. Umferðaraukning um Vaðlaheiðargöng kann þó að vera vanáætluð vegna bætts aðgengis Akureyringa að Vaglaskógi. Sú vegstytting verður um 20 km. Vaglaskógur hefur óumdeilanlega aðdráttarafl á sumrin. Bæði vegna fegurðar sem og vegna þess að þar er stundum betra verður en á Akureyri. Það er óskrifað blað í hve miklum mæli Akureyringar munu sækja í Vaglaskóg eftir að göngin opna.
Á öðru ári má einnig búast við nokkuð mikilli aukningu í umferð um Vaðlaheiðargöng þar sem samfélagið verður væntanlega enn að aðlaga sig að nýjum möguleikum sem opnast með göngunum. T.d. atvinnusókn frá Þingeyjarsýslu til Akureyrar. Í Hvalfjarðargöngum jókst umferðin um 10% milli fyrsta og annars árs. Einhvern veginn brestur undirrituðum kjark að spá slíkri aukningu í Vaðlaheiðargöngum og lætur 6% duga, það ætti ekki að vera óraunhæft. Eftir annað ár er líklegt að umferðaraukning verði einhver en þó minni. Hversu mikil er óljóst enda er hér farið að spá nokkuð langt inn í framtíðina. 2% árleg aukning gæti verið líkleg.
Ef umferðin verður sú sem hér hefur verið sett fram þá verður hún eins og línuritið sýnir. Þar er einnig sýnd umferð um Víkurskarð eftir göng sem er hlutfallslega svipuð og í Hvalfirði eftir Hvalfjarðargöng.
Það geta hins vegar orðið atburðir sem auka umferðina mun meira en þetta. T.d. uppbygging orkufreks iðnaðar við Húsavík eða eitthvað
slíkt. Ekki er þó varlegt að gera ráð fyrir neinu slíku á þessari stundu þó yfirgnæfandi líkur séu á
að orkan í Þingeyjarsýslum verði nýtt á næstu árum eða áratugum. Ýmis önnur óvissa er í spilunum. T.d.
má nefna að á einhverjum punkti mun hlufall rafbíla eða annarra sem ekki brenna olíu eða bensíni aukast verulega. Þá má gera
ráð fyrir að jaðarkostnaður við akstur (breytilegur kostnaður) muni lækka mikið. Það minnkar greiðsluviljann í göngin.
Á móti kemur að drægni rafbíla er takmörkuð og því mikils virði að geta stytt sér leið til að komast sem lengst
áður en þarf að hlaða aftur. Á þann hátt er vegstytting dýrmæt. Óvissa í olíuverði er einnig mikil. Ef
olíuverð hækkar verður greiðsluvilji meiri í göngin og þá hægt að hækka veggjaldið en á móti kemur að við
hátt olíuverð verður almennur akstur minni. Óvíst er því hvaða áhrif hærra olíuverð hefur á
tekjumöguleika ganganna. Með hærra olíuverði verður á hinn bóginn skipt fyrr yfir í aðra orkugjafa. Þarna er því margt sem
spilar saman og óvissa töluverð.
Umfjöllun FÍB:
Höfundur er lektor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur á RHA.