ON opnar tvær hraðhleðslustöðvar á Akureyri

Orka náttúrunnar tók í notkun tvær nýjar hraðhleðslustöðvar á Akureyri í dag. Ein er við Menningarhúsið Hof og önnur við verslunarmiðstöðina Glerártorg.
ON opnaði sínar fyrstu hraðhleðslustöðvar hér á landi fyrir tveimur árum síðan. Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, segir dýrmæta reynslu hafa fengist af rekstri þeirra. Rafbílum hafi stórfjölgað hér á landi síðan þá. „Þeir fjölmörgu aðilar sem hafa komið að uppbyggingu þessa nets hraðhleðslustöðva eiga heiður skilinn. Það þurfa nefnilega margir að leggja hönd á plóg ef við Íslendingar eigum að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í loftslagsmálum,“ segir Páll í tilkynningu á vef ON.
Með opnun hraðhleðslustöðvanna á Akureyri eru stöðvar ON orðnar tólf. Fyrir eru stöðvar á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, Reykjanesbæ, Akranesi og Borgarnesi. Rúv sagði fyrst frá. /epe.