„Öll uppbygging þarf að gerast á grænum forsendum“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur oddviti flokksins VG í NA-kjördæmi.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur oddviti flokksins VG í NA-kjördæmi.

Vikublaðið heldur áfram oddvitaspjallinu fyrir komandi alþingiskosningar í haust. Nú er komið að Vinstri grænum en það er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur sem er oddviti flokksins í NA-kjördæmi.

Bjarkey er fædd í Reykjavík og flutti sem hvítvoðungur til Siglufjarðar þar sem hún ólst upp. „Það var sannarlega gott að alast upp á Siglufirði þrátt fyrir að bærinn væri oft innilokaður í langan tíma á veturna vegna mikilla snjóa og erfiðra samgangna. Það var oft stuð á milli norður- og suðurbæjar og oft túttubyssuslagur þar sem engum var eirt. Svo þegar ég komst á unglingárin þá var bíóið hjá Oddi Thor og Billinn vinsælustu áningarstaðirnir. Besti ís í heimi sem ég hef smakkað fyrr og síðar sem Oddur í bíóinu bjó til og aurinn gjarnan nýttur þar. Á Billanum fylgdist ég með enska boltanum og horfði á vikugamla útsendingu og sérstaklega þegar mitt lið, Manchester United, var að spila. Ég flutti svo til Ólafsfjarðar , lauk þar grunnskólanum og hef meira og minna búið þar síðan og líkar vel. Auðvitað er ég mikið í Reykjavík vegna vinnu minnar en reyni að koma heim um hverja helgi sé þess nokkur kostur enda ótrúlega gott að koma heim í kyrrðina og hlaða batteríin,“ segir Bjarkey.

-Hvar ertu búsett og hverjir eru þínir fjölskylduhagir?

„Ég er búsett í Ólafsfirði og er gift Helga Jóhannssyni, fjármálaráðgjafa hjá Arionbanka. Börnin eru þrjú, Tímon Davíð sem rekur fyrirtæki í kælibransanum, Klara Mist sem er menntuð í friðar- og átakafræðum og hefur unnið víða um heim í hjálparstörfum, nú síðast með Læknum án landamæra í Eþíópíu en þegar hún er á landinu hefur hún verið leiðsögumaður í hvalaskoðun á Dalvík, Jódís Jana sem kláraði nám af félagsfræðibraut HA en hefur nýhafið diplómanám við Hí í skjalfræðum.“

-Hver eru þín helstu áhugamál?

„Fyrir utan pólitíkina er það hreyfing og útivist. Mér þykir afskaplega gaman að hlaupa, fara á fjöll, hjóla og svo fékk ég gönguskíði fyrir ekki svo löngu sem mér þykir frábær alhliða hreyfing. Enda göngubrautirnar hér í Ólafsfirði fyrir alla, byrjendur eða lengra komna. Er forfallin Manchester United-aðdáandi sem er gift Púllara þannig að það er stundum fjör á heimilinu í kringum það. Svo þykir mér gaman að elda góðan mat og lesa góðar bækur, helst glæpasögur og fer reglulega í leikhús. Ég hlusta líka töluvert á tónlist og get auðveldlega fellt tár yfir fallegum eða sorglegum textum.“

-Af hverju ætti fólk að kjósa Vg?

„Vegna þess að það skiptir máli hver stjórnar. Við höfum sýnt það að þegar Vinstri græn eru við stjórnvölin vinnum við hörðum höndum að umbótum í samfélaginu og náum árangri og ekki síst höfum við alltaf lagt mikið á okkur til að rödd Norðausturkjördæmis heyrist á Alþingi.

Vinstri græn hafa lag á því að ná breiðri samstöðu um að byggja upp tækifæri og jafna kjör almennings. Þegar á bjátar tökum við skynsamar og sanngjarnar ákvarðanir sem koma samfélaginu vel. Verkefnin eru alltaf ærin en þá er ekki síst mikilvægt að geta talað saman og miðlað málum.“

-Hverjar eru ykkar áherslur?

„Við Vinstri græn leggjum áherslu á að tryggja velferð og fjölbreytni. Við viljum tryggja búsetujafnrétti og frelsi fólks til að velja sér búsetu með eflingu sveitarfélaganna og uppbyggingu innviða og grunnþjónustu um land allt að leiðarljósi. Við ætlum að halda áfram að vinna markvisst gegn fátækt barna og að því að bæta hag allra tekjulægri fjölskyldna. Við viljum að fullt jafnrétti til náms sé tryggt og þar verður að gera betur.

Eins og stefnan okkar og verk sýna þá höfum við lagt mikla áherslu á loftslagsmálin sem og nýsköpun sem þarf að haldast í hendur. Við teljum líka að forvarnir og heilsuefling ættu að vera stærri hluti af stefnumótun hins opinbera og þannig sé unnið markvisst gegn heilsufarslegum ójöfnuði og heilbrigðara samfélag byggt upp.“

-Hvaða tækifæri sérð þú í að efla atvinnulíf á Norðurlandi eystra?

„Góðar almenningssamgöngur, heilbrigðisþjónusta og annað sem styrkir innviði eru forsenda þess að gefa fólki raunverulega frjálst val um búsetu. Það þarf að tryggja að fjármunir til nýsköpunar skili sér betur inn á okkar svæði, til dæmis með því að gera samtökum sveitarfélaga á svæðinu kleift að búa til aðstöðu og veita aðstoð fólki sem ekki treystir sér til að vinna stórar og viðamiklar umsóknir sjálft. Þannig gefum við íbúum tækifæri til að hrinda sínum hugmyndum í framkvæmd.

Mikilvægt er að fjölga eggjunum í körfunni, eins og stundum er sagt, og það er hægt að gera með því að fjölga enn frekar störfum án staðsetningar og styðja við þá klasa sem nú þegar hafa risið víðsvegar á svæðinu.

Ferðaþjónustan er okkur mikilvæg og það verður að fylgja því stíft eftir að uppbygging ferðagátta í gegnum bæði Akureyri og Egilsstaði verði varanleg, það er öllum til hagsbóta. Ekki síst verðum við að tryggja aðgang að íbúðarhúsnæði þannig að fyrirtæki geti hreinlega bætt við sig fólki, ekki síst í hinum dreifðari byggðum.“

-Hvernig má hlúa betur að brothættum byggðum á svæðinu?

„Um leið og við þurfum að tryggja strandveiðar í þeim byggðum þá þarf að fjölga atvinnutækifærum og styrkja innviði til þess að fólk fái tækifæri setjast þar að. Fólk vill ekki þurfa að fara tugi kílómetra eftir mjólkinni. Við þurfum því að halda áfram að styðja við þá aðila, eins og gert hefur verið á nokkrum stöðum; sem eru að halda úti verslunum sem ljóst er að ekki verða reknar með hagnaði.

Það þarf að hlusta á íbúana og virkja stjórnsýsluna í samræmi við þeirra áherslur, þannig náum við árangri.“

-Hvar liggja helst sóknarfæri hér í landshlutanum?

„Sóknarfærin liggja í mannauðnum og hann þarf að virkja enn frekar. Við erum með öfluga matvælaframleiðslu til sjávar og sveita þar sem hægt er að gera margt t.d. í gegnum nýsköpun. Tækifærin eru óþrjótandi hjá þeim sem starfa í iðnaði, ferðaþjónustunni, hugvitinu og skapandi greinum og þar verðum við að halda áfram að styðja við. Umfram allt þarf öll uppbygging að gerast á grænum forsendum og taka tillit til loftslagsvárinnar svo afkomendur okkar eigi sér góða framtíð.“


 

Má bjóða þér áskrift að Vikublaðinu? Smelltu þá HÉR. Þannig stuðlar þú að öflugri fjölmiðlun á þínu svæði.

 

Athugasemdir

Nýjast