Tillaga þessa efnis var samþykkt á síðasta stjórnarfundi Strætó bs. Hvert nemakort kostar 31.000 krónur og gildir til 1. júní
2009. Bæjarráð Akureyrar fékk á dögunum fyrirspurn frá Strætó bs. þar sem óskað var eftir því að
bæjarstjórnin gefi akureyrskum háskólanemum í Reykjavík kost á að fá fríkort í strætisvagnana þar.
Bæjarráð bókaði eftirfarandi um málið: "Kostnaður við almenningssamgöngur á Akureyri er að fullu greiddur úr
bæjarsjóði. Allir þeir sem þess óska geta ferðast með strætisvögnum Akureyrar án endurgjalds, þar á meðal nemendur
í skólum Akureyrar sem búsettir eru í öðrum sveitarfélögum. Bæjarráð telur það ekki koma til greina að greiða
einnig niður almenningssamgöngur í öðrum sveitarfélögum að óbreyttu."
Í tillkynningu frá Srætó bs. segir ennfremur að vilji sveitarfélög kaupa nemakort í strætó fyrir námsmenn sína óska þau skriflega eftir því við Strætó bs. Við móttöku erindisins opnast sá möguleiki að íbúar viðkomandi sveitarfélags sem eru nemendur í viðurkenndu námi á framhalds- eða háskólastigi á höfuðborgarsvæðinu geti sótt um nemakort á vefsvæðinu Strætó.is. Hingað til hefur skilyrði fyrir umsókn um nemakort verið að viðkomandi nemandi sé með lögheimili í sveitarfélagi sem á í samstarfi um nemakortin, þ.e. Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ eða Álftanesi. Kostnaður við rekstur strætisvagnakerfis höfuðborgarsvæðisins er ríflega 3.000 milljónir króna á ári, eða sem nemur rúmlega 15 þúsund krónum á hvern íbúa á svæðinu. Reglulega nýta rúmlega 30 þúsund einstaklingar þjónustu Strætó bs. og miðað við núverandi rekstrarkostnað nemur því kostnaður á hvern einstakling sem notar strætó reglulega um 100 þúsund krónum á ári. Með því að veita námsmönnum sem búsettir eru utan sveitarfélaganna sem reka Strætó bs. aðgang að nemakortakerfinu eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu því að niðurgreiða raunkostnað við notkun hvers nemanda um nær 70%, segir ennfremur í tilkynningu Strætó bs. Bréf sem kynnir ákvörðun Strætó bs. hefur verið sent öllum sveitarfélögum landsins.