Ólíðandi að stjórnvöld komi í veg fyrir að sjómenn geti samið

Sjómenn og útgerðarmenn telja mikilvægt að lög um stjórnun fiskveiða verði til lykta leidd. Mynd: Þo…
Sjómenn og útgerðarmenn telja mikilvægt að lög um stjórnun fiskveiða verði til lykta leidd. Mynd: Þorgeir Baldursson.

„Hagsmunir sjómanna og útgerðar fara að því leyti saman að fyrir báða aðila er mjög mikilvægt að ný fiskveiðistjórnunarlög  verði vel út garði gerð.  Það þýðir ekki að djöflast í þessu með látum og valdbeitingu líkt og einkennt hefur málið fram til þessa af hálfu stjórnvalda,“ segir Konráð Alfreðsson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar. Útgerðarmenn hafa ekki viljað semja við sjómenn fyrr en mál er varða lög um stjórnun fiskveiða eru til lykta leidd, en sem kunnugt er hefur ýmislegt gengið á varðandi þau mál undanfarna mánuði. 

Konráð segir sjómenn seinþreytta til vandræða og þeir séu almennt mjög þolinmóðir og láti ýmislegt yfir sig ganga.  Óvissunni verði þó að fara að linna, því fyrr því betra. Hann segir að sjómenn hafi í kjölfar samnings Alþýðusambandsins við sína viðsemjendur samið á svipuðum nótum varðandi kaupskrá og hækkanir á töxtum og fleiri föstum almennum liðum, sem séu með sama hætti og í ASÍ samingunum.  Mörg sérmál er varða sjómenn séu þó einn í lausu lofti og fáist ekki rædd fyrr en búið er að útkljá fiskveiðistjórnarlagamálið.

„Sjómönnum þykir alveg með ólíkindum að stjórnvöld geti hagað sér með þessum hætti, líkt og þau hafa gert undanfarin misseri.  Það er algjörlega óviðunandi að þau komi með þessum hætti í veg fyrir að sjómenn geti gengið endanlega frá sínum kjarasamningi,“ segir Konráð.

Kvaðst hann skora á nýjan sjávarútvegsráðherra að einhenda sér í að leysa málið þannig að sæmd verði af, ólíðandi sé að hægt sé að vinna skemmdarverk á heilli starfsgrein, sjávarútvegi, því málið varði alla þá sem starfa í greininni, bæði til lands og sjávar. „Þessi óvissa hefur vofað yfir okkur um langa hríð og er óþolandi, það er til að mynda með hreinum ólíkindum að þurfa að hlusta málflutning þeirra kvenna sem farið hafa fyrir sjávarútvegsnefnd. Maður á hreinlega ekki til orð yfir margt af því sem frá þeim hefur komið.“

Á félagsfundi Sjómannafélags Eyjafjarðar sem haldinn var nýlega var einnig mikið rætt um þá tilhneigingu útgerða að gera skammatímasamning við sjómenn, ekki bara þá sem nýlega eru ráðnir til starfa heldur einnig þá sem hafa verið til sjós árum saman og hjá sömu útgerð ef því er að skipta. Með því móti missa sjómenn veikindarétt og eins hafa þeir ekki uppsagnarfrest.  Konráð segir að félagið hafi mótmælt þessu háttarlagi, en fengið þau svör til baka að það hafi ekki umboð til að mótmæla fyrir hönd umræddra sjómanna. Lögfræðingur félagsins hefur á móti bent á að það sé fásinna. Sjálfir veigra sjómenn sér við að mótmæla þessu fyrirkomulagi af ótta við að missa plássið, enda sé mikil ásókn í störfin um þessar mundir og launin góð. Konráð segir að á félagsfundinum hafi einnig verið rætt um að sjómenn séu tregir að taka að sér störf trúnaðarmanna og víða séu þeir ekki til staðar.  “Sjómenn treysta sér ekki til að taka þessi störf að sér og það er áhyggjuefni,” segir formaður félagsins.

 

Nýjast