Ólafur úrskurðaður vanhæfur til að greiða atkvæði um Dalsbraut í bæjarstjórn

Tillaga að deiliskipulagi Dalsbrautar var samþykkt í bæjarstjórn í gær. Mynd: Hörður Geirsson.
Tillaga að deiliskipulagi Dalsbrautar var samþykkt í bæjarstjórn í gær. Mynd: Hörður Geirsson.

Nokkuð sérstök staða kom upp við upphaf fundar í bæjarstjórn Akureyrar í gær, þriðjudag, þegar tekin var fyrir fyrsti liður í dagskrá, um deiliskipulag Dalsbrautar sunnan Þingvallastrætis. Í atkvæðagreiðslu fyrir þann lið var Ólafur Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins úrskurðaður vanhæfur til að fjalla um málið, þar sem átta bæjarfulltrúar töldu Ólaf vanhæfan en tveir bæjarfulltrúar greiddu atkvæði með því að Ólafur væri hæfur. Ólafur vék því sæti á meðan þessi liður var afgreiddur og tók Njáll Trausti Friðbertsson varabæjarfulltrúi sæti hans í staðinn.

Ólafur hefur ekki verið fylgjandi lagningu Dalsbrautar og viljað fresta framkvæmdum en fram kom í máli Njáls Trausta á fundi bæjarstjórnar að hann væri fylgjandi framkvæmdinni. Meirihluti skipulagsnefndar lagði til við bæjarstjórn að deiliskipulagstilagan yrði samþykkt með breytingum sem gerðar voru síðasta fundi nefndarinnar. Deiliskipulagstillagan var samþykkt í bæjarstjórn með níu atkvæðum gegn tveimur. Það er því orðið ljóst að ráðist verður í lagningu Dalsbrautar, frá Þingvallastræti suður að Miðhúsabraut, á næsta ári.

Ástæða þess að greidd voru atkvæði um hæfi Ólafs til að fjalla um málið er m.a. sú að kona hans hafi sent inn athugasemd við framkvæmdina í auglýsingaferlinu. Sjálfur taldi Ólafur sig ekki vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu málsins. Fram kom hjá Ólafi við upphaf bæjarstjórnarfundar og áður en greidd voru atkvæði um hæfi hans, að Bjarni Sigurðsson formaður hverfisnefndar Naustahverfis hafi í viðtalstíma bæjarfulltrúa þann 13. október sl. óskað eftir því að stjórnsýslunefnd kannaði hæfi hans til að taka ákvarðanir varðandi Dalsbraut í bæjarstjórn. Ósk Bjarna kom fram vegna eigin hagsmuna Ólafs og fyrri aðkomu hans að málinu í skipulagsnefnd. Á fundi bæjarráðs þann 20. október sl. var þessu erindi Bjarna vísað til afgreiðslu stjórnsýslunefndar. “Þegar mér var ljóst að afgreiðsla deiliskipulagstillögu um Dalsbraut kæmi til afgreiðslu bæjarstjórnar vakti ég athygli forseta bæjarstjórnar á því að mér þætti óeðlilegt og óheppilegt að þetta mál væri ekki útkljáð í nefndinni áður en til atkvæðagreiðslu um deiliskipulag Dalsbrautar kæmi í bæjarstjórn. Það er álit forseta bæjarstjórnar að það mál þurfi ekki að afgreiða fyrir fundinn í dag en hins vegar sé ég vanhæfur sökum þess að eiginkona mín hafi skilað inn athugasemdum við skipulagstillöguna og styður þá skoðun sína álit bæjarlögmanns og lögmanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þessu áliti er ég ekki sammála enda voru athugasemdir eiginkonu minnar almenns eðlis og snéru ekki að sameiginlegri húseign okkar, heldur að umhverfi Lundarskóla og umferðaröryggi,” sagði Ólafur m.a. í yfirlýsingu sem hann las við upphaf fundarins.

 

Nýjast