Ökugerði tekið í notkun í júlí

Framkvæmdir eru hafnar á svæði Bílaklúbbs Akureyrar í Glerárdal, en þar hafa starfsmenn hjá GV-gröfum hafist handa við að útbúa ökugerði. Björgvin Ólafsson stjórnarmaður í Bílaklúbbi Akureyrar segir að stefnt sé að því að taka gerðið í notkun 1. júlí næstkomandi, en það er ætlað fyrir æfingaakstur og þar verður aðstaða fyrir ökukennara til að leiðbeina nemendum sínum. 

Björgvin segir að samkvæmt nýrri reglugerð um ökunám sé nú skylda að ökunemar reyni fyrir sér við hinar ýmsu aðstæður í ökugerðum, að öðrum kosti fái þeir ekki ökuréttindi.  Reglugerðin hefur verið í gildi frá því í byrjun október á liðnu hausti.Ökugerðið á Akureyri mun nýtast ökunemum af öllu Noðurlandi og þá á Björgvin von á að nemar úr öðrum landsfjórðungunum muni einnig fá að spreyta sig þar, m.a. af Austurlandi og jafnvel Vestulandi, en slík gerði eru enn ekki til staðar á þessum landssvæðum.  Markmiðið með ökugerðinu er að auka færni ökunema, m.a. með því að bjóða upp á æfingaakstur við fjölbreyttar aðstæður, m.a. akstur í hálku og á malarvegum.  „Tilgangurinn er að auka umferðaröryggi, það er mikilvægt fyrir þá sem eru að læra að aka að kynnast sem flestum aðstæðum sem upp geta komið í akstri,“ segir Björgvin.Bílaklúbbur Akureyrar mun eiga ökugerðið og verður það hluti af nýrri aðstöðu klúbbsins sem er á alls um 16000 fermetra svæði í Glerárdal.  „Við erum mjög spenntir fyrir því að taka þetta svæði í notkun, langþráður draumur okkur næst þegar það gerist,“ segir Björgvin.  Ætlunin er að flytja hluta af dagskrá Bíladaga sem verða á Akureyri í næstu viku á svæði klúbbsins í Glerárdal, m.a. svonefnda Burn out keppni og Drift.  „Í framtíðinni verða svo allir atbuðir Bíladaga á okkar svæði, þar sem þeir verða haldnir við bestu aðstæður sem völ er á,“ segir Björgvin.

Nýjast