Ókeypis bílastæði í miðbæ Akureyrar heyra brátt sögunni til

Bílastæðin í miðbæ Akureyrar verða ekki lengur gjaldfrjáls í lok sumars. Mynd/GN
Bílastæðin í miðbæ Akureyrar verða ekki lengur gjaldfrjáls í lok sumars. Mynd/GN

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að taka upp gjaldskyldu á bílastæðum í miðbæ Akureyrar. Stefnt er að því að nýtt fyrirkomulag taki gildi í lok sumars.

Verkefnahópur sem var skipaður starfsfólki bæjarins, ásamt sérfræðingi frá Eflu, hefur kortlagt og undirbúið þessar breytingar undanfarna mánuði.

Samhliða breytingunum er gert ráð fyrir því að gjald fyrir fastleigustæði verði hækkað og að innleitt verði nýtt gjald fyrir bílastæðakort sem íbúar í miðbænum hafa hingað til fengið sér að kostnaðarlausu.

Stefnt er að því að nota nýjustu tækni við innheimtu gjalda með hjálp smáforrits þannig að fólk geti greitt í símanum, en einnig verða settir upp greiðslustaurar.

Bæjarráð fól bæjarlögmanni og sviðsstjóra fjársýslusviðs að útfæra tillögur að breytingum á samþykktum, gjaldskrá og reglum sem þarf í tengslum við innleiðinguna.

Tillögurnar verða síðan lagðar fram til staðfestingar og samþykktar í bæjarráði og bæjarstjórn.


Athugasemdir

Nýjast