Eitt þeirra atriða sem vinnuhópur á vegum ríkisstjórnarinnar skoðar nú í kjölfar efnahagskreppu er hvort eigendum séreignarsparnaðar verði gefinn kostur á að taka hann út strax. Kári bendir á að fólk hafi ekki greitt skatt af viðbótarsparnaði, en við innlausn hans muni um 30 til 50 milljarðar króna í formi skatta renna strax til ríkisins. (Ekki 30-50 milljónir króna eins og misritaðist í Vikudegi í dag, innsk. ritstjóra) Skuldirnar séu fyrst og fremst við ríkisbankana og íbúðarlánasjóð. " Það er því ankanalegt ef fólk á að nýta eftirlaunasparnað sinn til að minnka væntanlegt tap ríkisfyrirtækja og borga fulla skatta af því í leiðinni," segir Kári. Telur hann farsælla að leita annarra leiða.. Ríkið gæti gefið eftir hluta af skuldum í formi vaxtalækkunar. Nauðsynlegt er einnig að að leyfa fólki að breyta erlendum skuldum í innlendar á "hagstæðu" gengi. Það ætti að vera hægt þar sem nýju ríkisbankarnir eru ekki með erlenda fjármögnun. Sá sem veitt hefur lán beri einnig ábyrgð og það er hans hagur að sem flestir geti borgað. "Það er ekki bankans hagur að leysa til sín eignir sem erfitt er að selja nú um stundir."
Kári bendir á að hluti af vanda heimilanna sé of mikil skuldsetning og hefðu sumir vart ráðið við skuldir sínar þó ástandið væri eðlilegt. Segir hann ríkið verða að grípa til almennra aðgerða sem gagnist öllum, þær meig ekki vera sértækar og einungis gagnast þeim sem verið hafi duglegastir við að safna skuldum. "Það má ekki hygla þeim sem hafa verið hvað óábyrgastir varðandi lántökur undanfarin ár, það verður að gæta jafnræðis í þessum efnum," segir Kári.
Hann telur að aðgerð af þessu tagi yrði erfið í framkvæmd, "Mér þykir þetta einkennileg aðgerð, ef ríkið ætlar að ganga á undan og bjóða fólki að taka úr sparnað sinn svo það geti staðið í skilum við þetta sama ríki. Það hljóta að vera til einfaldari aðferðir til þess og ef ríkið vill veita fólki aðstoð í þessum erfiðleikum þá verður sú aðstoð að vera almenn og réttlát. Þessi aðgerð er til þess eins fallin að tryggja hag ríkisbankanna og standa undir þeim okurkjörum sem nú eru í boði. Menn verða að gera sér grein fyrir því að þeir sem veitt hafa lán undanfarin ár bera ábyrgð. Þeir verða að slá af sínum kröfum. Það er ekki hægt að velta öllum vandamálum yfir á skattgreiðendur og það væri í hæsta máta óeðlilegt ef innlausn á eftirlaunasparnaði yrði sértök tekjulind fyrir ríkið nú."