Oddur markahæstur á sterku æfingamóti
Akureyri Handboltafélag hafnaði í neðsta sæti á sterku sex liða æfingamóti sem haldið var í Þýskalandi um liðna helgi. Ásamt Akureyri léku á mótinu þýsku úrvalsdeildarliðin SC Magdeburg, MT Melsungen og TuS N Lübbecke, svissneska liðið HC Kriens Luzern og sænska stórliðið Ystad IF.
Akureyri lék í riðli með Melsungen og Ystad IF. Norðanmenn náðu jafntefli gegn þýska liðinu en tapaði stórt gegn Ystad. Akureyri lék um fimmta sætið á mótinu gegn HC Kriens-Luzern og tapaði 20:31 en það var þýska liðið TuS N Lübbecke sem sigraði á mótinu.
Oddur Gretarsson var markahæsti maður mótsins með 28 mörk en besti leikmaður mótsins var valinn Daniel Svensson hjá Lübbecke.