Oddur líklega áfram hjá Akureyri

„Það lítur allt út fyrir að ég verði áfram með Akureyri,” segir handboltamaðurinn Oddur Gretarsson leikmaður Akureyrar. Oddur hefur ekkert heyrt frá þýska úrvalsdeildarliðinu Grosswallstadt en vangaveltur hafa verið um hvar þessi snjalli hornamaður leiki næsta vetur. Það er ekki endanlega ljóst hvað verður, en allt bendir til þess að Oddur verði áfram í herbúðum Akureyrar.

Oddur var í eldlínunni með íslenska landsliðinu í gær sem lagði Letta að velli 29:25 ytra. Oddur þurfti að fara af velli um tíma er hann fékk þungt högg á augað.

„Það blæddi hressilega úr auganu og ég sá ekki neitt með því í einhverjar mínútur. Ég er með ágætis glóðarauga núna,” sagði Oddur, sem kom þó aftur inná í leiknum. Hann verður væntanlega með íslenska liðinu í leiknum mikilvæga gegn Austurríki á sunnudaginn kemur.

Nýjast