Oddur í banni gegn HK-Heimir klár í slaginn?
Hornamaðurinn Oddur Gretarsson verður í leikbanni þegar Akureyri sækir HK heim í N1-deild karla næstkomandi sunnudag. Oddur fékk rauða spjaldið á lokasekúndunum í leik Akureyrar og Vals á dögunum er hann reyndi að hindra síðustu sókn Vals í leiknum og var úrskurðaður í eins leiks bann í dag. Þetta er blóðugt fyrir norðanmenn sem hafa nú þegar laskaðan hóp vegna meiðsla leikmanna. Það eru hins vegar einhverjar líkur á því að fyrirliðinn, Heimir Örn Árnason, spili með liðinu gegn HK. Heimir er að jafna sig eftir aðgerð á hné og mun það skýrast fyrir helgi hvort hann verði leikfær.
Það eru samt minni líkur en meiri að ég verði með en ekki útilokað. Það er ennþá vökvi inn á hnénu og ég mun hitta lækninn minn á föstudaginn og taka ákvörðun í framhaldi að því, sagði Heimir við Vikudag í dag. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum í hversu gríðarlegur liðsstyrkur það væri fyrir norðanmenn að fá fyrirliðann inn.