Oddur æfir með Gummersbach

Oddur Gretarsson, handknattleiksmaður í liði Akureyrar, er þessa dagana við æfingar hjá þýska úrvalsdeildarliðinu Gummersbach. Oddur segir í samtali við Vikudag að félagið hafi sett sig í samband við umboðsmann sinn og boðið Oddi til æfinga í kjölfarið. Hann hefur æft með liðinu síðan á mánudag en mun líklega snúa til baka á morgun. „Mér líst bara vel á þetta. Þetta er flottur klúbbur og gaman að spreyta sig með þeim,“ sagði Oddur við Vikudag í morgun, en Gummersbach situr í tólfta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar. Hann segir óvíst hvert framhaldið verði.

„Það verður bara að koma í ljós hvað gerist eftir þennan reynslutíma en það skýrist væntanlegt ekkert fyrr en eftir tímabilið heima.“ Hann segir engin önnur lið hafa verið í sambandi við sig en hann stefnir ótrauður í atvinnumennskuna í haust.

„Það er markmiðið en þó að ég verði að leika einn vetur hér heima til viðbótar að þá verð ég ekkert sár og svekktur,“ sagði Oddur, sem leikur sem vinstri hornamaður og hefur verið viðriðinn landsliðshópinn undanfarin ár.

Nýjast