Nýtt ökugerði tekið í notkun á Akureyri

Verið er að ganga frá húsnæði við ökugerðið, þar sem ökukennarar og Bílaklúbbur Akureyrar munu hafa …
Verið er að ganga frá húsnæði við ökugerðið, þar sem ökukennarar og Bílaklúbbur Akureyrar munu hafa astöðu.

Ökugerðið Akureyri ehf. hefur lokið lagningu kennslubrauta í ökugerðinu við Hlíðarfjallsveg á Akureyri. Ökugerðið er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi sem er byggt í samræmi við ýtrustu kröfur reglugerðar. Á svæðinu eru fimm æfingabrautir;  200 m löng malarbraut til æfinga á akstri á malarvegum, 100 m löng malbikuð braut til þjálfunar í akstri og viðbrögðum, 80 m löng braut til að æfa akstur útaf malbikskanti.

Þá eru tvær hálkubrautir þar sem ökunemar fá tækifæri til þess að kynnast akstri í hálku í vernduðu umhverfi.  Á svæðinu verður síðan komið fyrir kennslustofum og aðstöðu fyrir veltibíl og beltasleða. Í þessari viku hafa fimm ökukennarar setið á sérhæfðu námskeiði ætluðu ökukennurum sem gefur réttindi til kennslu í ökugerði.  FDM, systursamtök FÍB í Danmörku, tóku að sér þjálfun ökukennara sem í framtíðinni munu sjá um kennslu nemenda í ökugerðinu. FDM rekur meðal annars Sjálandsbrautina í Hróarskeldu sem er bæði keppnisbraut og ökugerði. 

Danskur kennari, Bent Grue frá FDM í Danmörku, stjórnaði kennslunni, en hann er einn helsti sérfræðingur Dana á þessu sviði og kennir jafnt, ökunemum og stjórnar endurmenntun meiraprófbílstjóra, lögreglumanna og fleiri starfsstétta. Kristinn Örn Jónsson ökukennari hefur tekið að sér stjórn ökugerðisins og verður í fyrirsvari fyrir starfsemina. Hann hefur áratuga reynslu í ökukennslu á Akureyri. Kristinn segir að almenn ánægja sé með hvernig til hefur tekist með uppbyggingu svæðisins.

Nýjast