Nýtt meistaranám í stjórnun við Háskólann á Akureyri

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor og deildarformaður Viðskiptadeildar.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor og deildarformaður Viðskiptadeildar.

Frá og með haustinu 2023 býður Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri upp á spennandi meistaranám í stjórnun. Annars vegar er um að ræða MS gráðu og hins vegar MM gráðu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HA.

„Við höfum stefnt að því í nokkur ár að koma á laggirnar meistaranámi í stjórnun enda hafa þarfagreiningar Viðskiptadeildar bent eindregið í þá átt. Innan deildarinnar eigum við mikinn mannauð sem getur tekist á hendur að kenna í þessu nýja námi og við gerum ráð fyrir því að nýja nám hljóti góðar viðtökur,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor og deildarformaður Viðskiptadeildar.

MS gráða í stjórnun er 90 ECTS eininga nám á meistarastigi. Námið hefur það að markmiði að nemendur öðlist sérhæfða þekkingu á stjórnun sem nýtist í þeirra störfum úti í atvinnulífinu. Það býður upp á breiðan grunn í stjórnun skipulagsheilda. Markmiðið er að nemendur öðlist þekkingu og hæfni til stjórnunar fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.

Nemendur geta tekið valnámskeið við aðra innlenda og erlenda háskóla sem HA hefur samstarfssamninga við.

MM gráða í stjórnun er 90 ECTS eininga nám á meistarastigi án lokaritgerðar. Í náminu öðlast nemendur sérhæfða þekkingu á stjórnun sem nýtist í þeirra störfum úti í atvinnulífinu. Það býður upp á breiðan grunn í stjórnun skipulagsheilda.

Markmiðið er að nemendur öðlist þekkingu og hæfni til stjórnunar fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.

Nemendur geta tekið valnámskeið við aðra innlenda og erlenda háskóla sem HA hefur samstarfssamninga við.

Sveigjanlegt nám

Námið er skilgreint sem fullt nám í eitt og hálft ár. Boðið verður upp á sveigjanleika þannig að nemendur geti tekið námið á lengri tíma. Kennsla mun fara fram á netinu í rauntíma á Teams/Zoom og með upptökum. Í sumum námskeiðunum geta nemendur mætt í kennslustofu þegar kennari er með kennslu í gangi. Flest námskeiðin sem boðið verður uppá eru kennd á ensku en einstaka námskeið verða kennd á íslensku.

Námið er sett upp sem sveigjanlegt nám í samræmi við kennslustefnu Viðskiptadeildar. Fjölbreytt námsmat verður og miðar m.a. að hagnýtingu þekkingar á fræðasviðinu. Í því felast meðal annars hópverkefni, einstaklingsverkefni og próf.


Athugasemdir

Nýjast