Vígsla á listaverkinu Orbis et Globus fór fram í Grímsey í vikunni sem er nýtt kennileiti fyrir heimsskautsbauginn eftir Kristinn E. Hrafnsson og Steve Christer hjá Studio Granda. Kúlan er 3 metrar í þvermál og hugmynd listamannanna er sú að hún færist úr stað í samræmi við hreyfingar heimsskautsbaugsins þar til hann yfirgefur eyjuna árið 2047 eða því sem næst. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.
Forsaga málsins er að tillaga Kristins og Studio Granda sigraði í samkeppni um nýtt kennileiti sem efnt var til undir lok ársins 2013 og voru úrslit í samkeppninni kunngjörð í mars 2014. Nú loks er kúlan komin á sinn stað og var hún vígð í blíðskaparveðri á heimskautsbaugnum að viðstöddum fjölda gesta.