Nýtt kaffihús og pizzustaður á Glerártorg

Grímuklætt fólk sem eflaust er í jólahugleiðingum á Glerártorgi. Mynd/Margrét Þóra Þórsdóttir.
Grímuklætt fólk sem eflaust er í jólahugleiðingum á Glerártorgi. Mynd/Margrét Þóra Þórsdóttir.

Töluverðar breytingar hafa verið í verslunum og veitingastöðum á Glerártorgi á þessu ári og frekari hræringar í farvatninu. Kaffi Torg hefur hætt rekstri og nýtt kaffihús sem nefnist Kaffi Boozt mun opna í staðinn í mars, en eigendur kaffihússins mun hins vegar reka kaffihús í rými Kaffi Torgs í desember. Nýja kaffihúsið verður staðsett við innganginn sunnan megin þar sem Rúmfatalagerinn er og mun kaffihúsið m.a. bjóða upp á laktósafría booztdrykki í samstarfi við Örnu og verður einnig í samstarfi við Te og Kaffi.

Þá mun pizzustaður opna innan skamms þar sem Subway var áður og nefnist Pizzan.is, en félagið rekur sjö álíka staði fyrir sunnan. Fleiri breytingar eru í farvatninu þar sem Heilsuhúsið mun flytja starfsemi sína frá Glerártorgi og eins og Vikublaðið greindi frá í sumar mun Rúmfatalagerinn flytja í nýju verslunarmiðstöðina Norðurtorg næsta sumar.

Lítið um laus rými og finna fyrir áhuga

Davíð Rúnar Gunnarsson, markaðsstjóri Glerártorgs, segir í samtali við Vikublaðið að það sé ekki óeðlilegt í verslunarmiðstöð að verslanir og veitingahús komi og fari. Ekki sé mikið um laus rými í verslunarmiðstöðinni. „Það er eins og gengur gerist í stóru húsi að breytingar eru tíðar. Þannig virkar þetta bara og þarf ekkert endilega að vera slæmt. Það er t.d. mikið spurt um þau fáu rými sem eru laus og við finnum fyrir miklum áhuga,“ segir Davíð. Ljóst er að töluvert stórt rými mun losna þegar Rúmfatalagerinn hverfur í sumar og segir Davíð óljóst hvað verður um það pláss. „Við erum að vinna mikið í því að leysa það. Þetta er stórt rými og það hefur komið upp sú hugmynd að brjóta plássið niður og hafa þar fleiri og minni verslanir. En hvað verður er ekki tímabært að segja,“ segir Davíð. Þá má geta þess að tískuvöruverslunin Imperial opnar í dag, fimmtudag eftir miklar endurbætur.

Gott hljóð í verslunarmönnum

Davíð segir verslunarfólk á Glerártorgi almennt vera sátt með verslunina í aðdraganda jóla sem óhjákvæmilega hefur færst töluvert á netið. „Það hefur orðið gríðarleg aukning í sölu á netinu hjá okkar verslunum. Við vorum t.d. að bjóða upp á fría heimsendingu í kringum Black Friday og einnig er komið svokallað snjallbox þar sem þú getur sótt vörurnar á þínum tíma allan sólarhringinn. Fólk hefur verið mjög duglegt að nýta sér það. Þá er bæði hægt að hringja í verslunina eða gera þetta í gegnum heimasíðu viðkomandi verslanna.“ Davíð segir árið í heild sinni hafa verið þokkalegt hvað varðar verslun. „Við getum ekki kvartað. Við ætluðum reyndar hafa heilmikið húllumhæ á þessu ári í tilefni 20 ára afmæli Glerártorgs en gerum eitthvað á næsta ári í staðinn.“


Athugasemdir

Nýjast