Nýtt íþróttahús vígt á Akureyri

Ingibjörg Ólöf Isaksen, Silja Dögg Baldursdóttir formaður frístundaráðs og Ellert Örn Erlingsson íþr…
Ingibjörg Ólöf Isaksen, Silja Dögg Baldursdóttir formaður frístundaráðs og Ellert Örn Erlingsson íþróttafulltrúi Akureyrarbæjar.

Íþróttahús Naustaskóla var vígt og formlega tekið í notkun í dag. Á heimasíðu Akureyrarbæjar segir að húsið sé í alla staði hið glæsilegasta og búið fullkomnum tækjabúnaði. Undirbúningur hófst fyrir byggingu Naustaskóla ársbyrjun 2006 og var fyrsti áfangi hans tekinn í notkun fyrir átta árum.

Íþróttahúsið var opnað fyrir iðkendum í tveimur áföngum; nemendur Naustaskóla hófu að nota það fyrir ári síðan og núna í haust var húsið opnað að fullu fyrir almenna notkun íþróttafélaga bæjarins.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs, flutti stutt ávarp við vígsluna þar sem hún meðal annars þakkaði öllum sem að verkinu komu.

„Ég óska Akureyringum til hamingju með þetta glæsilega íþróttahús. Megi það verða til þess að efla íþróttaiðkun í bænum, stuðla að aukinni hreyfingu og bættri heilsu bæjarbúa, auka metnað unga fólksins og ef til vill færa okkur í fyllingu tímans fleira afreksfólk sem getur fetað í fótspor fyrirliða íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu,“ sagði Ingibjörg og vísaði þar til Arons Einars Gunnarssonar sem er Akureyringur eins og kunnugt er. 

Nýjast