Nýtt hús Nökkva tekið formlega í notkun

Tryggvi Jóhann og Ásthildur Sturludóttir skrifuðu undir rekstarsamninginn en hann hefur verið samþyk…
Tryggvi Jóhann og Ásthildur Sturludóttir skrifuðu undir rekstarsamninginn en hann hefur verið samþykktur í frístundaráði og þá var hann samþykktur á fundi bæjarráðs í morgun. Mynd/Margrét Þóra

Skrifað var undir nýjan rekstrarsamning milli Akureyrarbæjar og Siglingaklúbbsins Nökkva við athöfn sem fram fór við nýtt hús Nökkva. Húsið var jafnframt formlega tekið í notkun. Mikil gleði ríkti í blíðskapar haustveðri enda hafa siglingamenn beðið lengi eftir betri aðstöðu. Rúnar Þór Björnsson fyrrverandi formaður Nökkva rifjaði söguna upp en hún nær til ársins 2003 þegar fyrst var talað um að byggja hús undir starfsemi siglingamanna.

Tryggvi Jóhann Heimisson formaður Nökkva sagði að húsið væri algjör bylting fyrir starfsemi klúbbsins og siglingamenn horfðu fram á bjarta tíma. Fyrrverandi íþróttafulltrúi Hermann Sigtryggsson hefur víða farið og séð mörg mannvirki en í samtali að hús Nökkva væri eitt það glæsilegasta sem hann hefði séð.

Húsið sem Nökkvi fær nú til umráða er um 400 fermetrar að gólfleti. Stærstur hluti þess er bátaskýli með góðri aðstöðu til viðhalds og endurbóta á bátum. Einnig er í húsinu fyrsta flokks búningsklefar með sturtum og þar er einnig að finna þurrkherbergi fyrir blautbúninga. Á efri hæð er gert ráð fyrir að félagsstarf klúbbsins fari fram. Þaðan er hægt að ganga út á góðar útsýnissvalir sem tengjast með stigum til tveggja átta.

/MÞÞ

 


Nýjast