Nýtt flokkunarkerfi í sorphirðu í Eyjafjarðarsveit
Frá og með 1. september nk. mun Gámaþjónusta Norðurlands sjá um sorphirðu í Eyjafjarðarsveit. Þá verður innleitt
flokkunarkerfi sem miðar að því að endurvinna það sorp sem hægt er og minnka að sama skapi það sorp sem keyra þarf á
urðunarstað. Boðið verður upp á endurvinnslutunnu við sérhvert heimili í sveitinni.
Einnig verður gámavöllur norðan við Hrafnagilsskóla þar sem staðsettir verða gámar fyrir flesta flokka úrgang s.s. timbur, málma, garðaúrgang og fleira. Vegna þessara breytinga á fyrirkomulagi sorphirðu verður haldinn kynningarfundur í Hrafnagilsskóla í kvöld, fimmtudagskvöldið 25. ágúst kl. 20.00. Þar munu fulltrúar frá Gámaþjónustu Norðurlands segja frá innleiðingu á nýju flokkunar- og endurvinnslukerfi. Íbúar eru hvattir til að fjölmenna, fá svör við fyrirspurnum og hafa tækifæri á að koma sínum skoðunum á framfæri. Þetta kemur fram á vef sveitarfélagsins.