Nýting frístundahúsa í Búðagili á Akureyri verið góð

Fyrirtækið Sæluhús Akureyri ehf. hefur rekið fimm frístundahús í Búðargili sunnan Sjúkrahússins á Akureyri sl. 18 mánuði og hefur nýtingin verið góð. Nýlega samþykkti bæjarstjórn samhljóða tillögu skipulagsnefndar, þess efnis að heimila fyrirtækinu að byggja tvö frístundahús til viðbótar, en úr steinsteypu í stað timburs, eins og gert er ráð fyrir í deiliskipulagi.  

"Ástæðan fyrir þessari breytingu er að í dag er hagkvæmara að byggja steinsteypt hús í stað timburs sem aftur sýnir hversu sérstakt umhverfið er í byggingariðnaðinum," segir Njáll Trausti Friðbertsson hjá Sæluhúsum. Hann segir stefnt að því að ljúka byggingu þessara tveggja húsa áður en aðal skíðavertíðin hefst, í febrúar á næsta ári, enda sé mikil eftirspurn eftir gistirými á svæðinu. Með nýju húsunum fjölgar gistirúmum þar úr 35 í 49. Þá er fyrirtækið með áform um enn frekari uppbyggingu í Búðargili og gangi þau eftir, verða á full nýttu svæðinu um 200 rúm.

Njáll Trausti segir ekki hafi verið hægt að anna eftirspurn eftir gistirými í bænum um tíma í sumar, enda hafi ekki verið byggt nýtt húsnæði fyrir þarfir ferðamanna á Akureyri um árabil. "Við erum með 78 fermetra hús þarna núna og þessi tvö nýju verða í þeirri stærð en til framtíðar er horft til þess að byggja minni rými. Það var töluverð vöntun á gistirými í bænum um tíma í sumar og þá erum við jafnframt að horfa til vetrarferðamennskunnar, sem var mjög góð sl. vetur. Það skipti alveg gríðarlegu máli fyrir aðila í ferðaþjónustu, verslun og veitingarekstri, hversu margir ferðamenn komu hingað sl. vetur. Þar gegnir uppbygging aðstöðunnar í Hlíðarfjalli lykilhlutverki. Það er jákvætt að geta ráðist í framkvæmdir á þessum tíma þegar gera má ráð fyrir að minna sé um framkvæmdir í byggingargeiranum en oft áður hér í bæ."

Njáll Trausti segir að nýtingin á húsunum fimm í Búðargili hafi aukist jafnt og þétt. "Ferðafólki finnst töluverður munur á því að hafa gistingu í bænum, eða fyrir utan hann. Ef fólk er að heimsækja Akureyri, vill það vera í bænum og geta þá notið þess að vera t.d. í göngufæri við miðbæinn. Stærstan hluta sumars voru útlendingar í miklum meirihluta í húsunum okkar og þeir voru mjög duglegir að versla og fara út að borða."

Útlitið fyrir veturinn gott

Njáll Trausti segir að það hafi færst í aukana að heilu fjölskyldurnar ferðist saman og þá skipti máli að geta boðið þessu fólki upp á gistingu þar sem allir geta verið saman á einum stað. Einnig sé verið að horfa til fólks sem vill vera útaf fyrir sig. Hann horfir björtum augum til vetrarins, enda sé orðið þétt bókað í húsin frá janúarlokum og fram yfir páska. "Þetta er nær eingöngu Íslendingar, að langstærstum hluta fjölskyldufólk, enda erum við ekki að fá marga útlendinga í heimsókn yfir vetrartímann. En það sem er að breytast er að margir sem komu í 3-4 daga sl. vetur, ætla að dvelja hér í viku í vetur."

Njáll Trausti, sem starfar sem flugumferðarstjóri, segir að lenging Akureyrarflugvallar eigi eftir að skipta miklu máli fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu en vissulega taki tíma að byggja upp til framtíðar. "Það eru flestir orðnir meðvitaðir um það að tekjur af erlendu ferðamönnunum á Norðurlandi hafa aukist umtalsvert á sl. árum. Hvort sem litið er til beinna, óbeinna og afleiddra áhrifa neyslu þeirra hér á landi. Það verður verkefni næstu ára að efla millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Vissulega er um langhlaup að ræða en áhrif lengingarinnar geta haft veruleg áhrif á atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi á næstu 5-10 árum ef vel er haldið á spöðunum. Í þessu liggja mikil tækifæri sem vonandi verður lögð mikil vinna í á næstu árum. Það er í þessu eins og öðru hlutirnar gerast ekki af sjálfu sér."

Nýjast