Nýlega var undirritaður nýr samningur milli Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara á Akureyri (EBAK) sem miðar að því að tryggja eldri borgurum á Akureyri aðgang að eins góðu félags- og tómstundastarfi og kostur er. Markmiðið er að tryggja og viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni þeirra til að njóta efri áranna eftir vilja og getu hvers og eins. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2018 til 31. desember 2020.
Félags- og tómstundastarfi fyrir eldri borgara á vegum Akureyrarbæjar er fyrst og fremst ætlað að skapa þær ytri aðstæður sem þarf til að efla frumkvæði, sjálfstæði og áhuga og stuðla að meiri virkni og þátttöku eldri borgara.