Nýr kjarasamningur sjómanna kynntur á félagsfundi á Akureyri

Nýr kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna, var undirritaður í gær. Sjómannafélag Eyjafjarðar hefur boðað til félagsfundar í Alþýðuhúsinu á Akureyri mánudaginn 29. desember kl. 11.00, þar samningurinn verður kynntur. Þá geta sjómenn greitt atkvæði um samninginn til hádegis þann 30. desember.  

Gestur fundarins á Akureyri verður Sævar Gunnarsson formaður Sjómannasambands Íslands. Konráð Alfreðsson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar segir að nýi samningurinn sé ákveðin uppfærsla á núgildandi samningi. Þó er sú nýbreytni í samningum að sjómenn verða aðilar að VIRK - endurhæfingasjóði og greiðir útgerðin 0,13% af öllum launum í sjóðinn frá 1. janúar nk., verði samningurinn samþykktur. Konráð segir að hér sé um mikið framfaraspor að ræða en endurhæfingarsjóði er ætlað að aðstoða fólk við að komast á vinnumarkaðinn á ný eftir slys eða veikindi. Hann hvetur félagsmenm sína til að fjölmenna á fundinn þann 29. desember og taka þátt í atkvæðagreiðslu um samninginn. Atkvæði um kjarasamninginn verða greidd hjá hverju aðildarfélagi fyrir sig og á atkvæðagreiðslu að ljúka fyrir áramót.

Nýjast