Nýr kafli í ferðaþjónustu á Húsavík
Í dag, þriðjudag verður Andvari, nýjasti rafbátur Norðursiglingar, formlega vígður á Húsavík.
Einnig verður fyrsta skóflustunga tekin að Sjóböðunum á Húsavíkurhöfða klukkan 16. Hálftíma síðar verður Andvari vígður við Húsavíkurhöfn. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar mun flytja ávarp að þessu tilefni. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun verða á staðnum ásamt Kristjáni Þór Magnússyni, , hafnar- og sveitarstjóra Norðurþings og munu þau einnig ávarpa samkomuna.
Að vígslu lokinni verður boðið upp á léttar veitingar á Hvalbaki, veitingastað Norðursiglingar.
Stórt skref í átt að rafvæðingu flotans
Í tilkynningu segir að Andvari sé annar báturinn í flota Norðursiglingar sem hafi verið rafvæddur og hefur fyrirtækið því stigið stórt skref í átt að fullri rafvæðingu flotans.
„Síðustu vikur hefur Andvari siglt með farþega í hvalaskoðun á Skjálfanda og óhætt að segja að upplifun þeirra hafi verið jákvæð enda er þessi einstaklega umhverfisvæni bátur algjörlega hljóðlaus sem gerir hvalaskoðun og náttúruupplifun við Skjálfanda enn ríkari og betri fyrir gesti,“ segir jafnframt í tilkynningunni.