Nýr framkvæmdastjóri SN og nýtt starfsár gengur í garð

Brynja Harðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og hefur hún nú formlega tekið við stjórnartaumunum. Brynja hefur fjölbreyttan bakgrunn sem lýðheilsufræðingur, kennari og myndlistarkona og hefur m.a. starfað sem markaðs- og kynningarstjóri fyrir Háskólann á Akureyri.   

Brynja er mikill hugsjóna- og félagsvísindamanneskja og lítur á tónlist og önnur listform sem  kjörið tækifæri til að efla vellíðan og ánægju fólks. „Tónlistin eflir alhliða þroska barna, gerir gráan dag rauðan, veitir sorgmæddum huggun og vekur ánægjutilfinningar sem öllum er hollt að rækta og leggur þannig lóð sitt á vogarskálar hamingju og heilbrigðis" segir Brynja. Hún bendir auk þess á að tónleikasókn gefi okkur kost á að deila upplifun okkar með öðrum og efla samkennd með fjölskyldu, vinum eða öðrum gestum.

Vetrardagskrá  Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands verður bæði fjölbreytt og litrík í vetur. Dagskráin spannar klassískar óperuperlur, ævintýri hrífandi músar, kammertónleika og sinfóníutónleika þar sem úrval einleikara og einsöngvara fer á kostum. Ljúfir aðventutónar, kröftugir stórtónleikar, spennandi frumflutningur og djörf Evróvisjónstemming eru m.a. í boði þar sem  höfðað er til allra aldurshópa og fjölbreytilegs tónlistarsmekks.

Starfsárið hefst í Hofi með Óperutöfrum á Akureyrarvöku 26. ágúst í Hofi. Þar sameina krafta sína undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, hluti af landsliði íslenskra einsöngvara þau Helga Rós Indriðadóttir, Sigríður Aðalsteinsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Ágúst Ólafsson og skagfirski Karlakórinn Heimir. Á efnisskránni eru klassískar perlur sem flestir þekkja, úr óperunum: Carmen, La Bohéme, Rakarinn frá Sevilla, Tannhäuser og Tosca.

Nýjast