Nýr forstöðumaður Miðstöðvar skólaþróunar við HA

Laufey Magnúsdóttir
Laufey Magnúsdóttir

Laufey Petrea Magnúsdóttir hefur verið ráðin nýr forstöðumaður Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA), en staðan var auglýst laus í janúar s.l. Sex umsóknir bárust um stöðuna en ein umsókn var dregin til baka.

Laufey Petrea er með MA-próf í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnunarfræði menntunarstofnana. Enn fremur er hún með viðbótarnám á bakkalárstigi í félagsfræði og heimspeki, kennsluréttindapróf í uppeldis- og kennslufræði og BA-próf í uppeldis- og menntunarfræði.

Laufey Petrea starfaði síðast sem verkefnastjóri stefnumótunar og skólanámskrárgerðar við Verkmenntaskólann á Akureyri en þar á undan var hún skipaður skólameistari við Framhaldsskólann á Húsavík. Hún var forstöðumaður kennslusviðs Háskólans á Akureyri frá 2003 til 2008 og gegndi stöðu aðjúnkts við kennaradeild við sömu stofnun. Frá 2001 til 2002 leysti hún af sem aðstoðarskólameistari við Menntaskólann á Akureyri og hafði þar áður sinnt störfum áfangastjóra, kennslustjóra svo og deildarstjóra jafnframt kennslu. Laufey Petrea starfaði sem námsráðgjafi við Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri frá 1988 til 1989.

Stjórnunarreynsla Laufeyjar Petreu er mjög víðtæk og liggur sú reynsla til grundvallar ákvörðun um ráðningu hennar í starfið. Þar að auki hefur hún sterka tengingu inn á framhaldsskólastigið þar sem mikilvæg sóknarfæri liggja fyrir Miðstöð skólaþróunar.

Laufey Petrea mun hefja störf þann 10. ágúst n.k.

Nýjast