Nýr formaður Góðvina

Berglind Ósk, formaður Góðvina. Mynd/HA
Berglind Ósk, formaður Góðvina. Mynd/HA

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingkona og fyrrverandi nemandi í lögfræði við Háskólann á Akureyri hefur verið kjörinn formaður Góðvina.

Aðalfundur Góðvina var haldinn 18. nóvember síðastliðinn. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf, þar á meðal að kjósa nýjan formann. Einar Brynjólfsson, fráfarandi formaður, lét af störfum og við tók Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingkona og fyrrverandi nemandi í lögfræði.

„Ég er búin að vera í stjórn Góðvina frá 2017 og í æðum mínum rennur HA rautt blóð. Það er mér mikill heiður að fara fyrir þessu félagi og ég hlakka til þess að fá fleiri fyrrverandi nemendur og aðra velunnara háskólans með mér í lið,“ segir Berglind.

Góðvinir voru stofnaðir 2002 og fagna því 20 ára afmæli á næsta ári

„Í tilefni af afmælisárinu langar okkur að koma stofnfjársjóðnum formlega á laggirnar en einnig þurfum við að fá fleiri fyrrverandi nemendur HA í félagið svo við getum haldið ærlega endurfundi,“ bætir Berglind við.

Markmið Góðvina hafa frá fyrstu stundu verið að auka tengsl háskólans við brautskráða nemendur og aðra velunnara hans ásamt því að styðja við uppbyggingu háskólans eftir fremsta megni, fjárhagslega og á annan hátt.

Heiðra kandídata við brautskráningu

Frá árinu 2004 hafa Góðvinir heiðrað að minnsta kosti einn kandídat frá hverju sviði háskólans við brautskráningu. Leitað er til sviðsforseta eftir tilnefningum um einstaklinga sem sinntu náminu vel en á sama tíma unnu óeigingjarnt starf í þágu háskólans á meðan á námstíma stóð. Þannig er ekki aðeins góður námsárangur verðlaunaður heldur líka frumkvæði og dugnaður, þátttaka í kynningum HA, efling félagslífs nemenda og seta í hagsmunanefndum fyrir hönd nemenda.

Fyrstu tvö árin voru verðlaun Góðvina háskólahringar. Vorið 2006 var ákveðið að sérsmíða gullnælu fyrir Góðvini sem þeir einir geta gefið. Næluna hannaði Kristín Petra Guðmundsdóttir gullsmiður og er hún eftirlíking af listaverkinu Íslandsklukkan eftir Kristinn Hrafnsson sem stendur á háskólasvæðinu. Listaverkið Íslandsklukkan vísar til þeirrar árvekni sem einkennir gott háskólafólk.

Færa háskólanum gjafir

Góðvinir hafa í gegnum tíðina fært háskólanum fjölmargar gjafir. Má þar nefna eyktaklukkuna sem prýðir stóran vegg í Miðborg. Klukkan vísar í gamalt íslenskt tímatal í stað tölustafa. Á 25 ára afmæli háskólans gáfu Góðvinir nýjar brautskráningarskikkjur fyrir rektor og forseta fræðasviða. Síðustu ár hafa Góðvinir stutt við Vísindaskóla unga fólksins en þar fá áhugasöm og fróðleiksfús ungmenni á aldrinum 11 til 13 ára tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn og kynnast Háskólanum á Akureyri.

Hægt er að skrá sig í félagið á vefsíðunni www.godvinir.is og er árgjaldið 2.900 kr. Einnig geta fyrirtæki verið í fyrirtækjaaðild og styrkja þá félagið um 25.000 kr.

Önnur leið til að styrkja Góðvini er með því að kaupa barmmerki Góðvina í vefverslun HA.


Athugasemdir

Nýjast