Nýir svifryksmælar settir upp á Akureyri

Tveir nýir færanlegir svifryksmælar af fullkomnustu gerð eru komnir til Akureyrar og í morgun var byrjað að setja annan þeirra upp við hlið gamla svifryksmælisins við Tryggvabraut. Að sögn Helga Más Pálssonar deildarstjóra framkvæmdadeildar verða mælarnir keyrðir saman um tíma við Tryggvabrautina, m.a. að til þess að hægt verði að sjá hversu nákvæmur gamli mælirinn er.  

Nýi mælirinn verður á þessum stað til lengri tíma en hinn nýi svifryksmælirinn verður settur upp við leikskólann Pálmholt til að byrja með. Helgi Már sagði að hann yrði þar í einn til tvo mánuði en svo færður til og m.a. settur upp við skóla og umferðarþungar götur. Sem fyrr segir eru nýju mælarnir af fullkomnustu gerð, þeir munu standa hærra en gamli mælirinn og á þeim er veðurstöð. Hægt er sjá úr hvaða átt svifrykið kemur og þannig nálgast betur uppsprettuna, eins og Helgi Már orðaði það. Mælarnir verða tengdir vef Akureyrarbæjar fljótlega og uppfærast upplýsingar á 10 mínútna fresti. Áætlaður kostnaður við kaupin á mælunum og uppsetningu þeirra er um 70 þúsund evrur, eða um 11-12 milljónir króna. Töluvert svifryk hefur mælst á Akureyri og stundum hefur það verið yfir heilsuverndarmörkum. Nú þegar fer að vora og snjórinn að hverfa má gera ráð fyrir að ástandið eigi eftir að versna til muna.

Nýjast