Nýir ráspallar settir upp í Sundlaug Akureyrar

Nýju ráspallarnir í Sundlaug Akureyrar. Mynd: Akureyri.is/Finnur Víkingsson.
Nýju ráspallarnir í Sundlaug Akureyrar. Mynd: Akureyri.is/Finnur Víkingsson.

Settir hafa verið upp nýir ráspallar í Sundlaug Akureyrar til notkunar á æfingum og á sundmótum. Í nýju pöllunum eru innbyggðir viðbragðsnemar og þeim fylgir samskonar búnaður fyrir baksund. Uppsetning pallana er stórt stökk fram á við en gömlu pallarnir eru orðnir ríflega 20 ára. Tilkoma nýju pallana er því fagnaðarefni fyrir skipuleggjendur og keppendur á sundmótum því þeir auðvelda þeim lífið umtalsvert. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar. 

Finnur Víkingsson formaður sundfélagsins Óðins er ánægður með nýja búnaðinn: "Við erum í skýjunum með þetta, nú eru okkar iðkenndur að nota eins palla og þau keppa á annarsstaðar sem skiptir miklu máli. Áður þurftum við að setja viðbragðsbúnaðinn ofan á gömlu pallana. Búnaðurinn mælir viðbragðstíma keppenda frá því að rásmerkið er gefið og segir til um hvort einhver hafi þjófstartað. Þetta gefur okkar krökkum þá líka tækifæri til að æfa viðbragðið sérstaklega. Í gömlu pöllunum gátum við ekki mælt þetta viðbragð í baksundi né heldur notað baksundsstartbúnað en nýju pallarnir bjóða líka upp á það. Þetta er bara frábært!" 

Búnaðurinn verður notaður í fyrsta sinn um helgina en á laugardag fer fram Lions-mót sundfélagsins Ránar frá Dalvík og heimaliðsins Óðins og hefst mótið kl. 9.


Athugasemdir

Nýjast