Eins og fram hefur komið er gert er ráð fyrir nýjum 3 - 5 hæða byggingum með yfir 150 nýjum íbúðum og allt að 16.000 fermetrum af atvinnuhúsnæði auk bílastæðakjallara undir húsum. Jafnframt að Glerárgata verði þrengd úr fjórum akreinum í tvær. Nýtingu bílastæða í miðbænum verður breytt og síki/vatnasvæði mun ná frá Torfunefsbryggju inn að bakhlið gamla Apóteksins við Hafnarstræti.
Sigrún Björk gerði grein fyrir upphafi þessa verkefnis en að það má rekja til íbúaþings og hugmyndasamkeppni sem haldin var veturinn 2004-2005 á vegum sjálfseignarstofnuninnar Akureyri í öndvegi og Akureyrarbæjar. Tólf fyrirtæki stofnuðu Akureyri í öndvegi og var markmiðið að endurlífga miðbæinn og stykja hann sem miðpunkt menningar og viðskipta á Norðurlandi. Í þessa hugmyndasamkeppnina bárust um 150 tillögur og þær fjórar tillögur sem hlutu verðlaun voru þær tillögur sem höfðu hvað sterkastan efnivið inn í nýja framtíðarsýn fyrir miðbæ Akureyrar. Í framhaldinu var reynt að flétta saman áhugaverðustu atriðum úr þessum tillögum við mótum framtíðarskipulags miðbæjarins.
Sigrún Björk sagði jafnframt að megin hugmynd þeirrar tillögu sem sigraði hafi verið aukin tengsl miðbæjar við ströndina, með vatnasvæði inn í uppfyllingunni á Torfunefi og með áherslu á eflingu mannlífs í miðbænum. "Þróun Akureyrar undanfarna áratugi og staða bæjarins nú er ekki slæm, miðað við þróun landsbyggðinarinnar almennt. Íbúum fjölgar árlega og undanfarin ár höfum við séð metfjölgun íbúa sem bendir til þess að þróunin sé í rétta átt. Akureyri hefur líka alla burði til að halda í við önnur byggðarlög á Íslandi og verða öflugur fyrirmyndarbær á evrópskan mælikvarða. Það er mikilvægt að fá fleiri til að búa á Akureyri og að auka nýsköpun í bænum. Miðbærinn hefur mikil áhrif á hvernig tekst til með það og þess vegna er nauðsynlegt að efla hann, þannig að hann gegni betur hlutverki sínu fyrir bæinn og bæjarbúa," sagði Sigrún Björk.
Í deiliskipulagstillögunni sem kynnt var er gert ráð fyrir um 16 þúsund fermetrum af atvinnu-, verslunar- og þjónustuhúsnæði og 155 íbúðum. Heildarbyggingamagn yrði þá um 31 þúsund fermetrar og með bílastæðahúsum undir þessum byggingum yrði byggingamagnið um 50 þúsund fermetrar. Pétur Bolli sagði að um Glerárgötu fari um 8.500 bílar á dag en miðað er við að fækka akgreinum á þessum kafla úr fjórum í tvær og að þar verði 30 km hámarkshraði. "Við þessa breytingu lengist ferðatíminn um háannatímann frá Kaupvangsstræti að Grænugötu um 42 sekúndur. Þá verða göngutengingarnnar öruggari með þessum aðgerðum."
Í dag eru 1056 bílastæði á öllu miðbæjarsvæðinu og sagði Pétur Bolli að þau væru misjafnlega vel nýtt. Innan þess svæðis sem unnið er með eru 264 bílastæði. Samkvæmt aðalskipulagi skal vera eitt bílastæði fyrir hverja íbúð og eitt bílastæði fyrir hverja 75 femetra atvinnuhúsnæðis. Pétur Bolli sagði að bílastæðaþörfin yrði leyst innan hvers reit og þá með bílakjöllurum og eða bílastæðahúsi.
Áætlaður brúttókostnaður vegna framkvæmdanna er áætlaður 2,7 milljarðar króna en nettókostnaður er áætlaður um 1,5 milljarður króna en miðað er við að gatnagerðargjöld nemi um 1,3 milljarði króna. Bæjarbúum gefst kostur á að gera athugasemdir við deiliskipulagstillöguna og þarf að skila þeim fyrir 5. mars nk. Pétur Bolli sagði að eftir að málið hefur verið afgreitt innan bæjarkerfisins og farið í lögbundið skipulagsferli, ætti gildistaka þess að geta orðið í byrjun sumars.