Nýdönsk í nánd og Svarta kómedían hjá LA
Leikárið fer af stað á fullum krafti og mun Nýdönsk mæta til leiks um helgina á nýjan hátt í návígi leikhússins. Sveitarmenn eru góðir sagnamenn og á leiksviði lifna sögurnar við hvernig lögin og textarnir urðu til ásamt því að leikhúsgestir fá innsýn inn í bæði skandala sveitarinnar sem og stórsigra. Framundan er einnig fyrsta frumsýning ársins, Svarta kómedían, sem frumsýnd verður 14. október.
Þar koma saman leikarar sem hafa í áratugi skemmt Íslendingum jafnt á leiksviði sem og í íslenskum kvikmyndum. Þar á meðal er Gestur Einar Jónasson sem svo eftirmynnilega sló í gegn sem hinn ótrúi eiginmaður Stellu í kvikmyndinni Stella í orlofi. Sunna Borg snýr einnig aftur til leiks eftir margra ára hlé en hún er Akureyringum í fersku minni sem Soffía frænka í síðustu uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Kardemommubænum. Meðal annarra leikara eru Þóra Karítas, Einar Aðalsteinsson, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Ívar Helgason og Árni Pétur Guðjónsson ásamt Guðmundi Ólafssyni, sem á nú um þessar mundir 30 ára leikafmæli, en samtals eiga leikararnir sem þátt taka í sýningunni samanlagt um 130 ára leikferil. Svarta Kómedían er upprunalega breskt leikrit síðan árið 1965 sem þýtt var á íslensku af Frú Vigdísi Finnbogadóttur árið 1973 og var sýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur við miklar vinsældir í tvö leikár. Leikurinn gerist í London árið 1965. Ungur, fátækur listamaður og unnusta hans fá ríkulega antíkhúsmuni að láni án leyfis til að ganga í augun á föður hennar, uppskrúfuðum og stífum offursta, og þýskum auðkýfingi sem er væntanlegur til að skoða verk listamannsins unga. Fyrirvaralaust fer rafmagnið af. Eigandi húsgagnanna kemur óvænt heim, fyrrverandi ástkona mætir óboðin og heimspekilegur rafvirki reynir að bjarga málunum. Eins og við er að búast er útkoman skelfilegur og sprenghlægilegur glundroði. Það ætti því enginn að láta sýningu Leikfélags Akureyrar á þessu skemmtilega verki framhjá sér fara enda um einstaka sýningu að ræða sem kemur áhorfendum sífellt á óvart.