Ný tækni í flugumferðarþjónustu á flugvöllum

Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.

Hjá Isavia hefur um nokkurt skeið verið unnið að þróunarverkefni sem snýst um að nýta stafræna myndavélartækni í tengslum við flugumferðarþjónustu á flugvöllum. Flestir sem veita þessa þjónustu í kringum okkur, bæði austan hafs og vestan, eru ýmist að skoða innleiðingu tækninnar eða eru nú þegar búnir að því að einhverju leyti. 

Tæknin sem slík gerir okkur meðal annars kleift að veita flugumferðarþjónustu á flugvöllum frá öðrum stað. Þetta er tækni sem við sjáum fyrir okkur að gæti nýst vel á Íslandi í framtíðinni, t.d. á litlum og afskekktum völlum þar sem erfitt getur reynst að finna sérmenntað starfsfólk til að sinna flugumferðarþjónustu. Í þeim tilfellum mætti veita þjónustuna frá öðrum stað þar sem hægt er að fá rétta fólkið til starfa. Tilgangurinn með verkefninu er að bæta þjónustu og auka öryggi. Þróunarverkefnið hefur staðið síðan 2015 og þótti Akureyrarflugvöllur henta vel sem prófunarflugvöllur þar sem að flest allir nauðsynlegir innviðir, s.s. flugbrautarljós, veður- og upplýsingakerfi, samskiptatæki og fleira, veita möguleika á fjarstýringu. Isavia er með örugga hringtengingu um landið á milli allra flugvalla fyrir gagnaflutninga. Aðrir flugvellir, sem komu til álita fyrir verkefnið, voru ekki eins vel búnir. Mesta áskorunin hefur verið að finna myndavélabúnað sem þolir íslenska veðráttu.

Flugumferðarþjónusta á Akureyrarflugvelli er tvískipt. Á tímabilinu frá kl. 07:00 til 23:00 er veitt flugstjórnarþjónusta (ATC) en á tímabilinu frá kl. 23:00 til 07:00 er veitt upplýsingaþjónusta (AFIS).  Fyrirhugað er að í byrjun árs 2020 veiti flugradíómenn á Egilsstöðum upplýsingaþjónustu (AFIS) á Akureyrarflugvelli á tímabilinu frá kl. 23:00 til 07:00 með þessari nýju tækni, en á þeim tíma er mjög lítil umferð um flugvellina. Framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia kynnti þetta verkefni á ráðstefnu Arctic Circle í síðustu viku meðal annars til að varpa fram þeim möguleika að nýta þessa tækni á Grænlandi, og þá fyrir nýja flugvelli sem eru á teikniborðinu þar í landi. Við sama tækifæri var viðruð sú hugmynd að miðstöð fyrir flugumferðarþjónustu á Grænlandi gæti verið staðsett hér á landi, að því gefnu að gagnatengingar milli landanna væru öruggar.  Þeir myndu jafnframt hafa í framhaldinu aðgang að nýjustu tækniþekkingu og vel þjálfuðu starfsfólki. Jafnframt er hægt að hugsa sér að þessi tækni gæti þjónað vel sem viðbragðsbúnaður í alvarlegri tilvikum.

Verið er að skoða tækni af þessu tagi víða um heim, annars staðar í Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada, og ljóst er að þróunin er hröð. Mikilvægt er að Isavia fylgist vandlega með þeim möguleikum sem standa til boða þannig að hægt sé að veita örugga og hagkvæma þjónustu á flugvöllum landsins.

-Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia

-Hjördís Þórhalldsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli og umdæmisstjóri flugvallasviðs á Norðurlandi

-Haraldur Ólafsson, yfirflugumferðarstjóri hjá flugleiðsögusviði Isavia

 


Nýjast