„Þetta verður stórglæsileg sýning og ég fullyrði að aldrei hefur annað eins úrval góðra hesta og knapa komið í Eyjafjörð síðan landsmót hestamanna fór fram á Melgerðismelum árið 1998. Þarna verður rjóminn af því besta, mörg bestu hross landsins munu sýna listir sínar ásamt flestum færustu knöpum Íslands og loks verða fremstu hrossaræktendur landsins með sýningu," sagði Sigfús Helgason, einn af nefndarmönnum í framkvæmanefnd sýningarinnar. Forsala miða á sýninguna er hafin í hestamannaverslunum á Akureyri og sagði Sigfús að best væri fyrir fólk að tryggja sér miða í tíma, því stefnan sé að troðfylla reiðhöllina og hugsanlega komist færri að en vilja.
Klukkan 19:00 fer fram sérstök móttökuathöfn heiðursgesta opnunarhátíðarinnar og er þar saman komið landskunnugt fólk m.a. forsvarsmenn annarra íþróttafélaga og sambanda auk stjórnmálamanna. Nýja reiðhöllinn er sú stærsta sinnar tegundar á Íslandi og tekur hún um 800-900 áhorfendur. Sigfús sagði að mikil ánægja sé með hvernig til tókst með byggingu hennar enda hafi verið vel vandað til verka. Nokkur reynsla er þegar komin á höllina þar sem að hún hefur verið í notkun frá áramótum og segir Sigfús að algjör sprenging hafi orðið í áhuga á hestamennsku á Akureyri. Námskeiðum og fleiri atburðum tengdum hestum hafi fjölgað gríðarlega og nú sé svo komið að nær ómögulegt sé að fá tíma í höllinni vegna þess hve þétt hún er setin.