Ný heilsugæslustöð opnuð í Mývatnssveit
Í gær miðvikudag var tekin í notkun ný heilsugæslustöð í Mývatnssveit sem gerbreytir aðstöðu til heilbrigðisþjónustu á staðnum. Oft skapast mikið álag á heilsugæslunni vegna þess fjölda ferðamanna sem fara daglega um Mývatnssveit
Bygging nýrrar heilsugæslustöðvar í Mývatssveit hófst síðastliðið sumar, en hún var áður í litlu íbúðarhúsi.. Nýja heilsugæslustöðin er nú í 240 fermetra nýbyggingu. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, vígði stöðina sem kostar 115 milljónir króna.
Starfsfólkið á staðnum segir nýtt húsnæði gerbreyta allri aðstöðu til heilbrigðisþjónustu. Dagbjört Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur, segir mestu breytingarnar þó verða við móttöku bráðveikra og mikið slasaðra. „Og við erum búin að hugsa um þetta í svo mörg ár og það er búið að fara í svo marga hringi að ég held að þetta sé bara stöð sem henti mjög vel í þessar aðstæður sem við búum við hérna,“ segir hún í samtali við fréttastofu RÚV.