NORRÆNA BYGGÐAFRÆÐIRÁÐSTEFNAN Á AKUREYRI
Um þrjú hundruð sérfræðingar á sviði byggðamála frá 27 löndum munu kynna rannsóknir sínar á ráðstefnunni "Nordic Ruralities: Crisis and Resilence" sem haldin verður við Háskólann á Akureyri 22.–24. maí næstkomandi.
Flestir Ráðstefnugestirnir koma frá Norðurlöndunum. Íslenskir fræðimenn sem taka þátt í ráðstefnunni eru á sjötta tug, þar af um helmingur frá Háskólanum á Akureyri en aðrir frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Hólum, Háskólasetri Vestfjarða, Austurbrú og Nýheimum á Höfn í Hornafirði.
Meðal viðfangsefna ráðstefnunnar má nefna ímyndir landsbyggðanna í kvikmyndum, áfengis- og vímuefnaneyslu ungs fólks, svæðisbundin áhrif háskólastarfs, skipulag heilbrigðisþjónustu, ferðaþjónustu og húsnæðismarkað, áhrif fiskveiðistjórnunar á byggðaþróun og starfsemi frumkvöðla af erlendum uppruna í dreifðum byggðum.