Norlandair kaupir Twin Otter flugvél af Air Greenland

Skrifað undir, f.v. Mogens E. Jensen og Hans Peter Hansen frá Air Greenland og Friðrik Adolfsson for…
Skrifað undir, f.v. Mogens E. Jensen og Hans Peter Hansen frá Air Greenland og Friðrik Adolfsson forstjóri Norlandair.

Flugfélagið Norlandair á Akureyri hefur gengið formlega frá kaupum á Twin Otter flugvél af Air Greenland, en þetta er vél sem Norlandair hefur verið með á leigu frá því í sumar. Friðrik Adolfsson forstjóri Norlandair, segir að félagið greiði fyrir vélina með hlutabréfum í Norlandair og á Air Greenland nú 25% í félaginu. Friðrik segir það mikinn styrk fyrir Norlandair að tengjast Air Greenland með þessum hætti, enda sé félagið gríðarlega öflugt. Einnig á Flugfélag Íslands eignarhlut í Norlandair.

“Þessi kaup gera okkur kleift að sinna öllu Grænlandi með Twin Otter flugvélum og við munum staðsetja þessa vél á vesturströnd Grænlands. Þar eru fjölmörg tækifæri, eins og reyndar á öllu Grænlandi í dag. Við eigum nú orðið fjórar flugvélar, þrjár af gerðinni Twin Otter, og eina Airvan sjö sæta útsýnisflugvél og leigjum eina Beech King air 200 vél.” Friðrik segir að starfsmenn hafi verið rúmlega 20 yfir sumarmánuðina en nú hafi verið fækkað um fjóra flugmenn. “Það er vegna þess að við verðum með tvær Twin Otter vélar í miklu viðhaldi í vetur. Það hefur verið rólegra hjá okkur yfir vetrarmánuðina en við ætlum okkur að reyna að bæta úr því. Það er mikið í gangi á Grænlandi, við erum að fljúga með vísindamenn, fyrir danska herinn og fleiri og þá mun það hjálpa okkur enn frekar að vera komnir með þessa tengingu við Air Greenland,” segir Friðrik.

Fulltrúar Air Greenland, þeir Mogens E. Jensen fjármálastjóri og Hans Peter Hansen framkvæmdastjóri, voru staddir á Akureyri í vikunni, til að ganga frá sölunni. Hans Peter tók undir með Friðriki og sagði að það væri mjög jákvætt fyrir Air Greenland að tengjast Norlandair á þennan hátt. Hann sagði félagið hefði verið með 11 gerðir af flugvélum fyrir um tveimur árum og að það væri ekki hagstætt. Það hafi m.a. verið óhagstætt að vera með varahluti fyrir allar þessar gerðir og að nú væru flugvélagerðir félagsins aðeins sjö. “Það var því jákvætt og skynsamlegt skref að selja Norlandair okkar einu Twin Otter vél og tengjast félaginu um leið. Og við getum stutt við bakið á Norlandair í þeim verkefnum sem félagið er með á Grænlandi,” sagði Hans Peter.

Friðrik segist hafa þekkt Hans Peter frá árinu 1980 og þeir unnið mikið saman. “Fyrir 17 árum töluðum við um að það væri betra að vera aðeins með eitt Twin Otter félag á norðurslóðum og nú er það orðið að veruleika.”

 

 

Nýjast