Norðurþing samþykkir að innleiða keðjuábyrgð
Á fundi sveitarstjórnar Norðurþings í vikunni var samþykkt að innleiða keðjuábyrgð hjá sveitarfélaginu. Keðjuábyrgð getur falið í sér að verksali eða aðalverktaki beri ábyrgð á því að undirverktakar standi í skilum og greiði rétt laun.
Fjölmörg atvik hafa komið upp á Íslandi þar sem aðalverktakar fríi sig undan ábyrgð á brotlegum undirverktökum. Það á við í Norðurþingi sem og annars staðar. Algengt er að aðalverktakar vísi til þess að samið hafi verið við verktaka og að í samningum við þá komi fram að virða skuli íslenska kjarasamninga. Keðjuábyrgð kæmi í veg fyrir slík undanbrögð.
Í bókun sveitarfélagsins Norðurþings segir m.a. að innleiðing keðjuábyrgðar gildi um alla samninga um verklegar framkvæmdir og kaup á þjónustu á vegum sveitarfélagsins.
„Þannig verði sett inn í slíka samninga ákvæði um keðjuábyrgð þeirra seljenda sem sveitarfélagið semur við. Með þessu vill Norðurþing tryggja að allir starfsmenn, hvort sem það eru starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, njóti launa, trygginga og annarra réttinda í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Aðalverktakinn verði þannig í verksamningi gerður ábyrgur fyrir að tryggja kjarasamnings- og lögbundin réttindi allra starfsmanna sem að verkinu koma. Þetta verður gert til að koma í veg fyrir undirboð og óeðlilega samkeppnishætti á vinnumarkaði,“ segir í bókuninni.