„Norðurþing hefur tekið vel á móti okkur og við kynnst fullt af góðu fólki“

Katrín ásamt Hauki eiginmanni sínum á góðri stund. Mynd/aðsend
Katrín ásamt Hauki eiginmanni sínum á góðri stund. Mynd/aðsend

Katrín Sigurjónsdóttir var ráðin sveitarstjóri Norðurþings á árinu sem leið. Aðspurð hvað hafi staðið upp úr hjá henni á árinu segir hún einmitt að það hafi verið stórt skref að flytja til Húsavíkur eftir 34 ára búsetu á Dalvík.

„Það var dásamlegt skref á lífsins braut og gaman að fá nýtt tækifæri til að starfa með sterkri sveitarstjórn og reynslumiklu og góðu samstarfsfólki. Norðurþing hefur tekið vel á móti okkur og við kynnst fullt af góðu fólki allt frá Reykjahverfi til Raufarhafnar,“ segir Katrín sem hefur lagt sig fram við að aðlagast samfélaginu bæði fljótt og vel. Hún hefur meðal annars tekið það skref að ganga í Kirkjukór Húsavíkurkirkju og lætur vel að starfinu þar. „Ég skellti mér í kirkjukór Húsavíkurkirkju í frábæran félagsskap þar sem er nóg að gera, mikill söngur og gleði. Svo fluttum við hjónin fyrir jólin í okkar eigið hús á Húsavík, það var kærkomið.“

 Þá voru tímót í fjölskyldu Katrínar sem að sjálfsögðu var haldið upp á. „Við fjölskyldan fögnuðum 85 ára afmæli pabba í Borgarfirði í júlí og fórum í brúðkaup á Siglufirði í ágúst. Um jólin dvöldum við stórfjölskyldan í Veiðihúsinu við Norðurá, skemmtileg nýbreytni sem verður örugglega endurtekin síðar,“ segir hún.

Katrín fylgdi þeirri þjóðlegu hefð að skella sér til Tene í sumarfríinu en ekki fylgir sögunni hvort teknar hafi verið tásumyndir. „Ég tók langt sumarfrí í fyrsta skipti í mörg ár. Við hjónin fórum til Tenerife í slökunarferð með góðum vinum. Síðan fórum við í 60 ára afmælisferð vinar okkar til Arran eyju við Skotland í júní. Að lokum fór ég með saumaklúbbnum til Frankfurt í nóvember, í heimsókn til vinkonu, þar sem við þræddum jólamarkaðina og fórum á tónleika með Bryan Adams. Allt mjög eftirminnilegar ferðir."

Það verður heldur ekki tekið af henni Katrínu að hún hefur hafið störf innan Norðurþings af miklum krafti og verið mikið á faraldsfæti enda stórt sveitarfélag að flatarmáli. Hún hefur flakkað mikið innan þess og sett sig inn í samfélag íbúanna. „Hér er mikil náttúrufegurð og ferðirnar austur á Kópasker og Raufarhöfn hafa veitt mér nýja sýn á það fallega og ósnortna landssvæði. Fjölskyldan okkar er að stórum hluta í Dalvíkurbyggð þannig að við höfum keyrt mikið þangað undanfarna mánuði, m.a. til að hitta börnin okkar, barnabörnin og vini. Það voru líka margar ferðir í kringum fótboltann en synir okkar spila með Dalvík/Reyni og KA,“ segir Katrín.  

 Spennt fyrir 2023

Katrín segist hafa miklar væntingar til ársins 2023 enda margt spennandi í gangi í Norðurþingi og stór mál sem gaman verði að fylgja eftir.  „T.d. bygging hjúkrunarheimilis á Húsavík, áframhaldandi vinna við Heimsskautsgerðið á Raufarhöfn, þróun Græns iðngarðs á Bakka og vinna við aðalskipulag sveitarfélagsins svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Katrín og bætir við að ekki megi gleyma að huga að því mikilvægasta.  

„Ég vona að það gefist mörg tækifæri á árinu til samverustunda með fjölskyldu og vinum. Við erum búin að fá boð í eitt brúðkaup í sumar og hlökkum mikið til. Það eru engar utanlandsferðir planaðar og persónulega langar mig frekar í ferðalög um Ísland á næsta ári. Nú er ég orðin félagsmaður í Völsungi og verð líklega eitthvað að stússast kringum mótahald, t.d. í blaki. Svo er það einlæg ósk mín að stríðinu í Úkraínu ljúki og það komist aftur á friður í Evrópu,“ segir Katrín að lokum.

Katrín sveitarstjóri


Athugasemdir

Nýjast