Norðurþing hefur áhyggjur af þeirri stöðu sem komin er upp vegna stöðvunar framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 að kröfu Landverndar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélaginu. Eins og komið hefur fram felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála á föstudag tvo úrskurði um stöðvun framkvæmda vegna ákvarðana sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4. Úrskurðirnir eru til bráðabirgða á meðan nefndin fjallar um kærur Landverndar vegna útgáfu framkvæmdaleyfanna.
„Sveitarfélagið Norðurþing lýsir þungum áhyggjum yfir þeirri stöðu sem upp er komin varðandi framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1, sem ætlað er að flytja orku til iðnaðarsvæðisins á Bakka. Öll hönnun svæðisins og uppbygging innviða hefur miðað að því að á næstu árum byggist þar upp iðnaðarsvæði með nokkrum fyrirtækjum sem nýta muni orku og línumannvirki svæðisins. Frá upphafi hefur verið litið á fyrri áfanga kísilvers PCC BakkiSilicon sem einungis fyrsta áfanga í þeirri uppbyggingu. Mjög miklir samfélagslegir og fjárhagslegir hagsmunir eru undir í því að niðurstaða fáist í málið á allra næstu dögum,“ segir í yfirlýsingu oddvita allra sveitarstjórnarflokka í Norðurþingi.
Tengdar fréttir:
Landvernd ítrekar kröfu um nýtt umhverfismat vegna Bakkalína
Umhverfismatið gerir ráð fyrir tvöfalt stærri verksmiðju
Framkvæmdir við Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 stöðvaðar að kröfu Landverndar