Nokkur bjartsýni ríkjandi varðandi atvinnuástandið

Alls voru 720 einstaklingar á Norðurlandi eystra í atvinnuleit nú í byrjun vikunnar, þar af voru 317 karlar og 403 konur.  Af þessu hópi voru 552 sem enga atvinnu höfðu, eða 77% af hópnum, en aðrir höfðu starf að hluta til.  Um 4,2 - 4,3% atvinnuleysi er í fjórðungnum.

Soffía Gísladóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar Norðurlands eystra segir að engar fjöldauppsagnir hafi borist inn á borð hér norðan heiða um nýliðin mánaðamót og staðan sé enn þokkaleg.  „Það ríkir hér nokkur bjartsýni enda eru verkefni að fara í gang á svæðinu á næstunni," segir hún.

Á Akureyri voru 552 skráðir án atvinnu, 250 karlar og 302 konur og af þeim hópi var 421 einstaklingur sem enga vinnu hafði, eða 76% sem var að fullu atvinnulaus en aðrir höfðu hlutastarf. Í ágúst síðastliðinum námu greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til einstaklinga á Akureyri alls ríflega 54 milljónum króna, en á sama tíma í fyrra, árið 2010, voru þær um 76,5 milljónir króna.  Í þeim mánuði var atvinnuleysi á Norðurlandi eystra 4,3% og ef einungis er hoft til Akureyrar var það 5,3%.  Það var nokkru meira í ágúst í fyrra eða 6,6%

Nýjast