Njáll Trausti í þingframboð
Njáll Trausti Friðbertsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, hyggst bjóða sig fram á fundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi á framboðslista flokksins fyrir komandi alþingiskosningar. Njáll Trausti starfar sem flugumferðarstjóri hjá ISAVIA og hefur verið bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri undanfarin sex ár.
„Það eru yfirgnæfandi líkur á að ég fari fram,“ segir Njáll Trausti í samtali við Vikudag. Njáll Trausti er annar formanna Hjartans í Vatnsmýrinni sem hefur barist fyrir því að Reykjavíkurflugvöllurverði áfram óskertur í Vatnsmýri. „Ferðaþjónusta, heilbrigðismál, samgöngumál og umhverfismál eins og til dæmis skógrækt og orkuskipti í samgöngum eru mér líka ofarlega í huga.“
Hann segir eitt af stóru verkefnunum á næstu árum sé að skapa forsendur betri möguleika á bættri dreifingu erlendra ferðamanna um allt land og yfir allt almanaksárið. Hann segir ennfremur beint millilandaflug um alþjóðaflugvellina tvo, Akureyrar og Egilsstaðaflugvöll, vera gríðarlega mikilvægt mál í þeirri viðleitni að opna fleiri gáttir inn í landið. Lengra viðtal við Njál Trausta má nálgast í Vikudegi sem kom út í dag.
-Vikudagur, 25. ágúst