Níu starfsmönnum Byrs á Akureyri var sagt upp störfum í vikunni en þeir störfuðu í bakvinnslu. Flestir þeirra hafa valið að starfa áfram fram í lok janúar og fresta starfslokum þangað til, að sögn Guðnýjar Helgu Herbertsdóttur upplýsingafulltrúa Íslandsbanka. Þá hefur Örn Arnar Óskarsson útibússtjóri Byrs á Akureyri sagt upp störfum. Alþingi hefur samþykkt sölu á hlut ríkisins í Byr til Íslandsbanka og mun bankarnir sameinast undir nafni Íslandsbanka.
Alls eru starfsmenn Byrs á Akureyri 24 og varðandi uppsagnir annarra starfsmanna, sagði Guðný Helga að engar ákvarðanir hafi teknar um þau mál. Að sjálfsögðu verður horft til beggja banka við sameiningu þeirra. Lögð er rík áhersla á að upplýsa starfsfólk eins vel og mögulegt er um næstu skref í því sameiningarferli sem nú er farið af stað.
Alls var 42 starfsmönnum Íslandsbanka sagt upp störfum í vikunni og 21 til viðbótar hættir störfum samkvæmt samkomulagi við bankann. Engar uppsagnir voru hjá Íslandsbanka á Akureyri. Aðspurð um hvort til standi að fjölga starfsfólki í útibúi Íslandsbanka á Akureyri, sagði Guðný Helga að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það. Bankinn mun upplýsa um slíkar aðgerðir þegar nær dregur sameiningu útibúanna. Við munum kappkosta að upplýsa viðskiptavini á Akureyri eins vel og við getum um sameiningu bankanna. Markmiðið með sameiningunni er að byggja upp eitt öflugasta fjármálafyrirtæki landsins með áherslu á góða þjónustu á samkeppnishæfum kjörum.
Viðskiptavinir Byrs flytjast sjálfkrafa yfir til Íslandsbanka við sameininguna. Íslandsbanki mun kynna hvernig yfirfærslan gengur fyrir sig fyrir viðskiptavinum þegar nær dregur og kappkosta að hún hafi sem minnst áhrif á viðskiptin.
Starfsemi Byrs verður rekin áfram í núverandi húsnæði við Skipagötu fram að flutningi yfir í útibú Íslandsbanka hinum megin við götuna. Ráðgert er að bankarnir á Akureyri sameinist um miðjan febrúar á næsta ári. Þrjár hæðir í húsinu við Skipagötu eru í eigu Byrs, eða nú Íslandsbanka en Guðný Helga segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um húsnæðið eins og stendur.