Níu nemendur brautskráðust frá MA í dag

Hvítir kollar settir upp.   Myndir ma.is
Hvítir kollar settir upp. Myndir ma.is

Níu nemendur brautskráðust frá MA í lok haustannar. Sjö þeirra voru við brautskráningu í dag, 9. janúar, en tvær stúlkur voru flognar af landi brott. Athöfnin var á Miðsal í Gamla skóla þar sem útsýnið var fagurt á þessum fallega vetrardegi. Skólameistari flutti stutt ávarp og Íris Ísafold konsertmeistari skólans spilaði tvö lög.

Skólameistari óskaði nýstúdentunum til hamingju með áfangann og sagði að ekki væri aðalatriðið hvort þau kláruðu að vori eða vetri, það sem skipti máli væri að þau hefðu sýnt þrautseigju og seiglu og lagt á sig það sem þarf til að ljúka stúdentsprófi.

Frá brautskráningu í dag.

Hann sagði að samkennd og samvera og félagslíf væri mikilvægur hluti af þeirri menntun sem þau hefðu fengið í skólanum og hvatti þau til að rækta vináttuna. Hann nefndi líka að menntun er ekki hæfni eða áfangi sem maður nær í eitt skipti fyrir öll heldur er mikilvægt að einsetja sér að læra allt lífið.

,,Hvatning mín til ykkar er að hætta aldrei að læra, hætta aldrei að reyna að lifa farsælu lífi þar sem góðvild, samkennd og hjálpsemi ræður för"

Að lokinni brautskráningu var boðið upp á tertu í tilefni dagsins og var þetta afar notaleg samverustund.

Nýjast